Milwaukee Bucks er NBA meistari 2021 eftir sigur á Phoenix Suns í lokaúrslitum deildarinnar. Í kvöld fór fram leikur 6 í þessum lokaúrslitum þar sem Suns voru með bakið uppvið vegg á meðan Bucks gátu unnið fyrsta NBA titil félagsins síðan 1971.

Leikurinn var gríðarlega kaflaskiptur í kvöld. Bucks höfðu tögl og haldir á leiknum í fyrsta leikhluta en taflið snerist við í öðrum leikhluta þegar Suns tók yfirhöndina í leiknum. Jafnræði var með liðunum í seinni hálfleik en Bucks virtust alltaf vera líklegri. Leikur Suns var þvingaður og erfiður í fjórða leikhluta á meðan Giannis virtist geta sett allt ofan í fyrir Bucks. Niðurstaðan 98-105 sigur Milwaukee Bucks sem fögnuðu innilega titlinum í leikslok.

Gríska undrið breyttist í skrímsli í nótt. Hann átti einhverja ótrúlegustu frammistöðu leikmanns í lokaúrslitum NBA deildinni frá upphafi þegar hann skilaði 50 stigum, 14 fráköstum og 5 varin skot. Þá átti Bobby Portis Jr. geggjaða frammistöðu í kvöld þegar hann skilaði 16 stigum þegar mest á reyndi.

Þetta er fyrsti titill Bucks í 50 ár en eini NBA titill borgarinnar kom árið 1971 þegar Oscar Robertson og Kareen Abdul-Jabbar voru uppá sitt besta. Stórkostlegur árangur Giannis og félaga í ár.