Hrunamenn hafa samið við Yngva Freyr Óskarsson um að leika með liðinu á komandi tímabili í fyrstu deild karla. Yngvi kemur til liðsins frá Haukum, en hann hafði einnig verið með Hrunamönnum á venslasamning á yfirstandandi tímabili. Í 8 leikjum með Hrunamönnum á tímabilinu skilaði hann 14 stigum og 9 fráköstum að meðaltali í leik.

Tilkynning:

Búast má við að lið Hrunamanna sem leikur í 1. deild karla á næstu leiktíð verði skipað sama kjarna leikmanna og lék með liðinu í 1. deildinni á liðinni leiktíð. Árni Þór Hilmarsson mun áfram þjálfa liðið. Félagið hefur tryggt sér þjónustu eins leikmanns nú þegar og fleiri samningar bíða undirritunar. Sá fyrsti til þess að skrifa undir samning þetta árið er hinn 23 ára gamli Yngvi Freyr Óskarsson. 

Yngvi Freyr er 202 sentimetrar á hæð og leikur mest í stöðu miðherja eða kraftframherja. Hann er skynsamur og sterkur leikmaður sem býr yfir ágætu skoti, bæði innan og utan teigs. Yngvi Freyr þekkir til á Flúðum því hann lék með liðinu síðari hluta síðastu leiktíðar á venslasamningi frá Haukum. Yngvi Freyr kunni vel við sig með Uppsveitapiltum, féll vel að leikmannahópnum og lék reglulega vel fyrir liðið, – svo vel raunar að hann er öðru sæti yfir Íslendingana í 1. deildinni sem skila mesta framlaginu fyrir lið sín. Aðeins Róbert Sigurðsson, leikstjórnandi Álftaness, er með hærri meðaltalsframlagseinkunn. Róbert var með 17,79 framlagsstig en Yngvi Freyr 17,38. Yngvi skoraði 14,3 stig að meðaltali í leikjunum 8 sem hann lék fyrir Hrunamenn og tók 8,9 fráköst. Það er ljóst að Hrunamenn hafa hér tryggt sér góðan liðsstyrk. 

Samningur Yngva Freys við Hrunamenn er til eins árs.Hrunamenn bjóða Yngva Frey velkominn í félagið og hlakka til samstarfsins við hann á leiktíðinni.

Myndin er tekin við undirritun samningsins í gær. Með Yngva á myndinni er Harpa Vignisdóttir formaður Körfuboltadeildar Ungmennafélags Hrunamanna.