Keflavík tekur á móti Þór í þriðja leik úrslitaeinvígis liðanna í Dominos deild karla. Fyrir leik kvöldsins hafa Þórsarar unnið tvo leiki á móti engum og geta þeir því með sigri tryggt sér fyrsta Íslandsmeistaratitil félagsins. Fyrsta leik einvígisins vann Þór nokkuð örugglega í Keflavík, en annar leikurinn var öllu jafnari, þar sem að munurinn var aðeins fimm stig þegar upp var staðið.

Karfan heyrði í Viðari Erni Hafsteinsyni þjálfara Hattar og spurði hann út í einvígið og leik kvöldsins í Keflavík.

Hvernig hefur þér fundist úrslitaeinvígið hingað til, hefur eitthvað komið þér á óvart?

“Mér hefur fundist einvígið mjög skemmtilegt. Kom mér á óvart hvað Þór Þorlákshöfn hafði mikla yfirburði í fyrsta leiknum og hvernig þeir stýra þessu einvígi”

Hvað sérð þú gerast í þriðja leiknum í kvöld?

“Ég sé Keflavík mæta brjálaða og mun einbeittari en í fyrstu tveimur leikjunum. Þessi frammistaða Þórsara hefur gefið Keflvíkingum vel á trantinn. Keflavík vinnur næsta í hörku leik, mikið barist og blóð. Keflavík tekst að halda þessu í low scoring og vinna. Síðan klára Þórsarar þetta í Þorlákshöfn í leik 4. Ég skora þá á minn mann Ragnar Matthías að taka orminn hans Inga Þórs í fagnaðarlátunum”