Vestri tók í gær á móti Hamri í fjórða leik liðanna í úrslitaséríu 1. deildar karla um laust sæti í Dominos deild karla. Ísfirðingar unnu leikinn örugglega eftir glæsilegan fyrri hálfleik, 100-82.

Gangur leiksins

Vestramenn ætluðu að taka vel á Hamarsmönnum í þessum leik og nýttu sér snemma stærðina til að rífa niður fjöldann allann af sóknarfráköstum. Þar að auki voru skotin að detta vel fyrir þá í byrjun og Hilmir Hallgríms setti m.a. niður þrjá þrista í fyrsta leikhluta. Á hinum enda vallarins gekk Hamri illa að brjóta vörn Vestra og lítið vildi fara niður í fyrstu. Staðan eftir fyrsta leikhlutann var því 29-16 fyrir heimamönnum sem var ekki óyfirstíganlegur munur fyrir gestina úr Hveragerði.

Annar leikhlutinn hófst á stórskotahríð hjá liði Vestra. Á fyrstu mínútunni skoruðu Ísfirðingar 9 stig áður en Hamarsmenn gátu svarað með körfu. Eftir rúmar tvær mínútur spilaðar í öðrum leikhlutanum var staðan orðin 40-18 fyrir Vestra. Þá tók Máté Dalmay, þjálfari Hamars, leikhlé og hélt háværa eldræðu sem heyrðist um allt íþróttahúsið og alla leið til eyru áhorfenda. Honum stóð augljóslega ekki á sama um frammistöðu sinna manna.

Leikmenn Hamars brugðust rétt við og skoruðu 10 stig á næstu tveimur mínútunum. Ef þeir hefðu getað haldið því við þá hefðu Hvergerðingar verið fljótir að koma sér aftur inn í leikinn. Þetta reyndust hins vegar vera einu stigin sem að liðið gat skorað í leikhlutanum. Næstu 6 mínútur fram að hálfleik fór ekkert niður hjá Hamri gegn sterkri vörn Vestra og staðan í hálfleik varð því 59-28 fyrir Vestra. Útlitið var ekki gott fyrir gestina.

Hamar byrjaði seinni hálfleikinn betur en þann fyrri og gengu á lagið gegn sofandi Vestramönnum sem virtust halda að leikurinn væri unninn. Pétur Már, þjálfari Vestra, var hins vegar rólegur og leyfði sínum mönnum að reyna leysa vandann inni á vellinum. Á sjöttu mínútu þriðja leikhluta lét Hilmir Hallgrímsson hins vegar stela boltanum af sér á miðjum velli og fékk óíþróttamannslega villu þegar hann reif aftan í Ragnar Jósef Ragnarsson sem var þá á leið í hraðaupphlaup. Pétur Már tók þá leikhlé og ræddi við sína menn og skerpti á þeim. Hamarsmenn náðu að skora jafnmikið í þriðja leikhluta og í öllum fyrri hálfleiknum sínum en staðan var samt 83-55 þegar leikhlutanum lauk.

Eftirleikurinn varð nokkurn veginn þannig að Hamar gat aldrei náð muninum nægilega niður til að eiga möguleika. Þegar fjórði leikhlutinn var hálfnaður fór þjálfari Vestra að taka heiðursskiptingar og áhorfendur fögnuðu hverjum leikmanni á fætur öðrum sem fengu að setjast á bekkinn eftir góða frammistöðu í leiknum í kvöld. Varamenn Vestra misstu muninn úr 30 stigum í 18 stig fyrir lok leiksins en það skipti ekki öllu máli. Vestri vann að lokum 100-82.

Lykillinn

Ken-Jah Bosley var að öðrum ólöstuðum besti leikmaður Vestra í kvöld. Hann skoraði 27 stig, tók 6 fráköst, gaf 5 stoðsendingar og stal þremur boltum. Hann var með 59% skotnýtingu í leiknum, þar af 4 þristar í 9 tilraunum (44% þriggja stiga nýting).

Hjá Hamri voru þeir Jose Medina Aldana og Pálmi Geir Jónsson skástir í þessum erfiða leik. Jose var með 13 stig, fráköst og 9 stoðsendingar á meðan að Pálmi Geir var stigahæstur í liðinu með 17 stig.

Tölfræðin lýgur ekki

Vestri átti miklui betri leik í kvöld sem sást best á framlagsmuninum á liðunum. Heimamenn luku leik með 140 framlagspunkta samtals á meðan að Hamar endaði með 81 framlagsstig.

Skotnýtingin var þar að auki miklu betri hjá Vestra, 46% skotnýting gegn aðein 36% hjá Hamri.

Kjarninn

Þá hefur Vestri tryggt sér sæti í úrvalsdeild karla á næsta tímabili. Þeir verða nýliðar í deildinni með Breiðablik og keppa með þeim bestu á Íslandi. Það er stutt í næsta tímabil og margt er óráðið hjá Ísfirðingum enda eru fæstir samningsbundnir á næsta ári. Það skýrist eflaust á næstu vikum en ljóst er að Ísafjörður gæti verið góður staður fyrir unga og efnilega leikmenn til að finna sér hlutverk í úrvalsdeild karla.

Hamar verður þá áfram í 1. deild karla að ári en munu gera það án þjálfara þeirra, Máté Dalmay. Samningur Máté með Hamri er útrunninn og hann sagði í viðtali eftir leikinn að aðkomu sinni að liðinu úr Hveragerði væri lokið. Þar verða þá mögulega tækifæri fyrir nýja þjálfara og nýja leikmenn á næsta ári.

Tölfræði leiksins

Viðtöl eftir leik

Pétur Már, þjálfari Vestra, eftir að lið hans tryggði sig upp í úrvalsdeild karla.

Nemanja Knezevic, miðherji Vestra, eftir sigurinn.

Máté Dalmay, þjálfari Hamars, eftir erfitt tap.

Mynd með frétt birt með góðfúslegu leyfi Önnu Ingimars ljósmyndara fyrir vestan.