Þór lagði Stjörnuna í kvöld í þriðja leik einvígis liðanna í undanúrslitum Dominos deildar karla, 115-92. Þórsarar eru því komnir með yfirhöndina í einvíginu, 2-1, og geta tryggt sér sæti í lokaúrslitum með sigri í næsta leik.
Fyrir leik
Staðan í einvíginu jöfn fyrir leikinn, þar sem liðin höfðu skipt með sér sigrum. Stjarnan vann fyrsta leikinn í Þorlákshöfn, en síðan jafnaði Þór einvígið í Garðabæ.

Gangur leiks
Á upphafsmínútum leiksins voru það gestirnir sem voru betri. Fá nokkur skot til að detta og eru 7 stigum yfir eftir nokkurra mínútna leik. Heimamenn ná þó að snúa taflinu sér í vil ansi fljótt og eru 5 stigum yfir eftir fyrsta leikhlutann, 30-25. Undir lok fyrri hálfleiksins láta Þórsarar svo kné fylgja kviði og koma forystunni mest í 12 stig. Munurinn 8 stig þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 59-51.
Í upphafi seinni hálfleiksins gera heimamenn sig líklega til þess að taka leikinn algjörlega yfir. Með góðum þriðja leikhluta, þar sem þeir virtust varla geta klikkað úr skoti koma þeir forystu sinni í 16 stig fyrir lokaleikhlutann, 86-70. Stjarnan mætir svo fremur illa inn í lokaleikhlutann. Leyfa heimamönnum eiginlega bara að valta yfir sig og eftir fyrstu 3-4 mínúturnar virðast þeir gjörsigraðir, 24 stigum undir og tilbúnir að kasta inn handklæðinu. Fór svo að lokum að Þór vann leikinn með 23 stigum, 115-92.

Tölfræðin lýgur ekki
Þórsarar settu niður 15 þriggja stiga skot í leiknum og voru með 60% nýtingu í þeim. Stjarnan setti 14, en var með öllu verri nýtingu, aðeins 34%.
Atkvæðamestir
Callum Lawson var bestur í liði heimamanna í dag, skilaði 26 stigum, 8 fráköstum og 3 stoðsendingum.Hlynur Bæringsson var framlagshæstur í liði Stjörnunnar með 12 stig, 6 fráköst og 4 stoðsendingar.
Hvað svo?
Fjórði leikur liðanna er komandi miðvikudag 9. júní í MGH í Garðabæ.
Myndasafn (Bára Dröfn)