Þorleifur Ólafsson hefur verið ráðinn þjálfari meistaraflokks kvenna hjá Grindavík og tekur við af Ólöfu Helgu Pálsdóttur sem kom liðinu upp í Úrvalsdeild.

Þorleifur er grindvískum körfuknattleik vel tengdur en hann var fyrirliði karlaliðs Grindavíkur er það varð Íslandsmeistari árin 2012 og 2013 ásamt því að hafa tvívegis orðið bikarmeistari með liðinu.

„Þetta er mjög spennandi áskorun og ég hlakka til að hefjast handa. Stelpurnar stóðu sig frábærlega í vetur og ég tek við frábæru búi af Ólöfu Helgu,“ segir Þorleifur. „Við ætlum okkur að byggja ofan á þennan góða árangur sem náðist í vetur og stimpla okkur aftur inn sem gott lið í Dominos-deildinni á næstu leiktíð.“

Grindavík lenti í þriðja sæti 1. deildar kvenna í ár og stóð svo uppi sem sigurvegari í úrslitakeppninni þegar liðið sló Njarðvík frækilega út í úrslitunum eftir að hafa lent 0-2 undir.