Framherjinn Thelma Dís Ágústsdóttir mun aftur halda vestur um haf til Bandaríkjanna fyrir næsta tímabil og halda áfram að leika með Ball State Cardinals í bandaríska háskólaboltanum. Staðfestir leikmaðurinn þetta í samtali við Körfuna fyrr í dag.

Thelma Dís fór fyrst út til náms fyrir þremur árum, en kláraði grunnnám sitt við Ball State nú í vor og gat þar af leiðandi leikið með liði sínu á Íslandi, Keflavík, í undanúrslitum Dominos deildar kvenna. Mun hún nú halda út til þess að klára tveggja ára meistaranám við sama skóla og halda áfram að leika með Cardinals í MAC hluta bandaríska háskólaboltans.

Áður en Thelma hélt upphaflega til Bandaríkjanna vann hún allt sem í boði var með liði Keflavíkur og þá var hún einnig valin besti leikmaður tímabilsins 2016-17. Á síðasta tímabili með Ball State skilaði Thelma 11 stigum, 5 fráköstum og 2 stoðsendingum að meðaltali í leik og var hún gífurlega skilvirk sóknarlega með 42% þriggja stiga nýtingu og 77% skotnýtingu af gjafalínunni.