Verðlaunahátíð KKÍ fór fram nú í hádeginu á Grand Hótel í Reykjavík. Venju samkvæmt las formaður sambandsins Hannes Jónsson pistil þar sem hann fór yfir hugrenningar í lok tímabils. Pistilinn má í heild lesa hér fyrir neðan.

PISTILL FORMANNS


Lengsta keppnistímabili okkar körfuboltamanna er nú loksins lokið, og þegar ég segi loksins þá er það vegna þess að þetta tímabil hefur reynt verulega á alla sem að körfuboltanum koma, rétt eins og landsmenn alla.

Síðastliðið sumar var mikil eftirvænting fyrir því að hefja tímabilið 2020-2021 þar sem tímabilið á undan endaði skyndilega þegar heimsfaraldur COVID-19 setti heimsbyggðina á hliðina. Vonir og væntingar um að þetta tímabil yrði nú eðlilegt voru ekki lengi að fara út í veður og vind. Tímabilinu sem nú er lokið verður minnst fyrir mikla óvissu, þar sem löng stopp og endurræsing tímabilsins hafði mikil áhrif, ásamt öllum þeim sóttvarnarreglum sem þurfti að fylgja.

Þakklæti og virðing er mér efst í huga núna þegar tímabilið okkar er gert upp. Að klára þetta tímabil var svo sannarlega ekki sjálfsagt, og það tók mjög á að ljúka því. Sóttvarnarumhverfið setti auknar kröfur á alla sem að leiknum komu, og þær reglur gátu breyst án fyrirvara. Allir sem að körfuboltanum koma eiga skilið innilegar þakkir fyrir ótrúlega þolinmæði við krefjandi aðstæður.

Mig langar að nota tækifærið hérna og þakka fjölmiðlum fyrir gott samstarf og góða vinnu. Það eru ekki margir sem gera sér grein fyrir því hversu heppin við íþróttaáhugamenn eru að eiga þetta dugmikla einstaklinga sem fjalla um íþróttir í fjölmiðlum. Hérna á Íslandi þurfa okkar íþróttafréttamenn að vera vel að sér í flestum íþróttum og þau sem sinna þessum störfum eru að sinna vinnu sinni af ástríðu og hugsjón fyrir íþróttum. Kærar þakkir til ykkar allra sem komið að umfjöllun um körfubolta og íþróttir á Íslandi.

Nýliðið keppnistímabil var það níunda í röð þar sem úrvalsdeildir okkar báru nafn Domino´s, Domino´s deildin. Níu ár er langur tími í svona samstarfi en allt hefur sinn endi. Nýir eigendur Domino´s telja að nú sé rétti timinn til að gefa úrvalsdeildum okkar nýtt nafn, og því munu deildirnar bera nýtt nafn á komandi tímabili. Það verður spennandi að sjá hvað fyrirtæki mun setja nafn sitt á deildirnar okkar. Domino´s þakka ég fyrir frábært samstarf, samstarf sem hefur gefið körfuboltanum mikið en á þessum níu árum hefur körfuboltinn vaxið mikið hvernig sem á það er horft. Takk Domino´s!

Um nýliðna helgi fengum við hjá KKÍ þakkarpóst frá einum öflugum sjálfboðaliða sem þakkaði fyrir tímabilið. Með orðum sjálfboðaliðans, “Mig langar til að þakka ykkur sérstaklega fyrir góð samskipti í gegnum þetta annars stórskrítna covid tímabil. Þetta hefur tekið á og allir haft í nógu að snúast en saman gerðum við þetta bara svo vel.” Þessi póstur hreyfði mjög við mér, því það er ekki oft sem við hjá KKÍ fáum þakkir fyrir okkar starf. Við erum því miður vön því að fá heyra ýmist miður fallegt um okkar störf. Við kunnum því vel að meta þessi fallegu orð, en lokaorðin póstsins sitja nærri hjarta mínu, “Þetta hefur tekið á og allir haft í nógu að snúast en saman gerðum við þetta bara svo vel”. Þessi orð fanga kjarnann í allri okkar vinnu á undanfarið ár. Við fórum í gegnum þetta öll saman og kláruðum þetta tímabil svo vel saman. Við þennan yndislega lestur kom textabrot Rúnars Júl upp í huga mér, sem ég held mikið upp á og mér finnst eiga vel við í þessu samhengi, “Það þarf fólk eins og þig fyrir fólk eins og mig”.

Við höfum nú krýnt Íslands- og deildarmeistara meistaraflokka, ásamt meisturum í yngri flokkum fyrir nýliðið tímabil, og í dag erum við samankomin til að heiðra þá einstaklinga sem hafa skarað fram úr. Ég myndi helsta vilja verðlauna alla úr körfuboltafjölskyldunni fyrir þeirra framlag á nýliðnu keppnistímabili, en það er ekki hægt öðruvísi en að færa þeim okkar bestu þakkir fyrir ósérhlífni og dugnað. Í körfuboltafjölskyldunni eru ekki bara leikmenn, dómarar, þjálfarar, stjórnamenn, sjálfboðaliðar og stuðningsfólk. Það eru líka makar, börn, foreldrar, systkini og vinir þeirra sem taka þátt. Á bakvið hvern einstakling er fjölskylda sem styður viðkomandi í verkefnum sínum. Ykkur sem munið hljóta verðlaun hér á eftir óska eg til hamingju sem og ykkar fjölskyldum, njótið vel ykkar verðlauna þið eruð svo virkilega vel að þeim kominn.

Til hamingju kæra körfuboltafjölskylda með nýliðið keppnistímabil, við erum öll sigurvegarar.