Keflavík lagði KR í fyrsta leik undanúrslita Dominos deildar karla í kvöld, 89-81. Keflvíkingar því komnir með yfirhöndina í einvíginu, 1-0, en næsti leikur er komandi föstudag í Vesturbænum.

Fyrir leik

Liðin höfðu í tvígang mæst áður á tímabilinu og hafði Keflavík sigur í bæði skiptin. Fyrri leikinn vann Keflavík í Vesturbænum með 24 stigum í febrúar, en þann seinni er var í Keflavík í maí unnu þeir með 8 stigum.

Gangur leiks

Leikurinn fór nokkuð fjörlega af stað. Liðin skiptust á að hafa forystuna í nokkur skipti á upphafsmínútum leiksins, en þegar sá fyrsti var á enda voru það heimamenn sem voru hænuskrefinu á undan, 26-23. Undir lok fyrri hálfleiksins eru heimamenn svo áfram aðeins yfir, þó ekki miklu, en þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik eru þeir stigi yfir, 43-42.

Leikstjórnandi Keflavíkur og umdeilanlega þeirra mikilvægasti leikmaður, Hörður Axel Vilhjálmsson, var í miklum villuvandræðum í þessum fyrri hálfleik. Fékk sína þriðju í byrjun annars leikhlutans og náði ekki að taka mikinn þátt eftir það. Stigalaus, en með 3 stoðsendingar í þessum fyrri hálfleik.

Fyrir heimamenn var það Dominykas Milka sem bar hitann og þungann af sóknarleik liðsins í fyrri hálfleiknum, skilaði 17 stigum og 4 fráköstum. Fyrir gestina úr Vesturbænum var það hinn magnaði Tyler Sabin sem var atkvæðamestur í fyrri hálfleiknum, 12 stig og 4 fráköst.

Með góðu áhlaupi í upphafi seinni hálfleiksins ná KR-ingar að komast yfir og eru á tíma með sína mestu forystu í leiknum til þessa, 6 stig. Keflvíkingar svara því þó nokkuð vel og ná að vera 3 stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 63-60. Í fjórða leikhlutanum ná heimamenn svo að halda áfram að vera skrefinu á undan. Eru nokkið öruggir í brakinu þrátt fyrir mjög heiðarlegar tilraunir gestanna og hreint út sagt stórkostlegar rispur frá Tyler Sabin. Niðurstaðan að lokum 8 stiga sigur Keflavíkur, 89-81.

Tölfræðin lýgur ekki

Keflvíkingar voru duglegir að koma sér á línuna í leik kvöldsins, settu 20 víti af 23 (86%) í leiknum á meðan að KR tók aðeins 12 víti í leiknum og settu niður 9 (75%)

Atkvæðamestur

Dominykas Milka var bestur í liði heimamanna í leiknum, skilaði 26 stigum og 12 fráköstum. Fyrir KR var það Tyler Sabin sem dró vagninn með 29 stigum og 9 fráköstum.

Hvað svo?

Næsti leikur liðanna er að Meistaravöllum í Vesturbænum komandi föstudag.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Bára Dröfn)