Keflavík lagði Þór í kvöld í þriðja leik úrslitaeinvígis liðanna, 97-83. Þór enn með yfirhöndina í einvíginu eftir leikinn 2-1, en þeir geta með sigri í þeim næsta tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn.
Fyrir leik
Fyrir leik kvöldsins höfðu Þórsarar unnið fyrstu tvo leikina. Fyrsta leik úrslitanna unnu þeir með mjög svo örugglega, með 18 stigum, í Keflavík. Annar leikurinn var öllu jafnari, þar sem Þór vann með aðeins 5 stigum í Þorlákshöfn.
Gangur leiks
Heimamenn mættu nokkuð vel gíraðir til leiks. Með sterkum varnarleik ná þeir að vera skrefinu á undan í fyrsta leikhlutanum, sem endar 23-15. í öðrum leikhlutanum komast gestirnir svo í aðeins betri takt við leikinn, sem kemur kannski helst í veg fyrir að heimamenn ná að bæta mikið við forystuna, sem þó er 9 stig þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik
Atkvæðamestir fyrir heimamenn í þessum fyrri hálfleik voru Calvin Burks með 13 stig og 3 fráköst og Dominykas Milka með 10 stig og 4 fráköst. Fyrir heimamenn var Larry Thomas líflegastur með 13 stig og þá skilaði Ragnar Örn Bragason 9 stigum.
Í upphafi seinni hálfleiksins er leikurinn svo áfram í jafnvægi. Keflavík einhverjum 8-12 stigum á undan lungann úr leikhlutanum. Ná þó einhvernvegin ekki að bæta neitt mikið meira við þá forystu. Munurinn 11 stig fyrir lokaleikhlutann, 67-56. Um miðjan fjórða leikhlutann ná Keflvíkingar svo aðeins að bæta í og koma forysty sinni í 18 stig. Gera svo vel að halda það út, niðurstaðan 14 stiga sigur, 97-83.
Tölfræðin lýgur ekki
Keflavík vann frákastabaráttu kvöldsins nokkuð örugglega, 40-29. Þar af tóku þeir 11 sóknarfráköst á móti aðeins 6 hjá Þór. Af þessum sóknarfráköstum skoruðu Keflvíkingar 13 stig á móti aðeins 2 stigum Þórsara
Atkvæðamestir
Dominykas Milka var bestur í liði Keflavíkur í dag, skilaði 25 stigum og 7 fráköstum. Fyrir Þór var það Larry Thomas sem dró vagninn með 24 stigum, 5 fráköstum og 4 stoðsendingum.
Hvað svo?
Fjórði leikur einvígis liðanna fer fram komandi föstudag í Þorlákshöfn
Myndasafn (Atli Mar & Ísak Leó)