Keflavík lagði KR í kvöld í þriðja leik undanúrslitaeinvígis liðanna í Dominos deild karla, 88-70. Leikurinn sá þriðji sem Keflavík vinnur og eru þeir því komnir í úrslitaeinvígið á meðan að KR þurfa að sætta sig við sumarfrí á undan öðrum í fyrsta skipti síðan 2013.

Fyrir leik

Keflavík unnið fyrstu tvo leiki einvígisins. Báðir leikirnir verið nokkuð jafnir, þó svo að undir lokin hafi þeir báðir verið nokkuð öruggir fyrir Keflavík.

Gangur leiks

Það voru heimamenn í Keflavík sem mættu miklu betur stemmdir til leiks í kvöld. Ná strax á fyrstu mínútum leiksins að byggja sér upp þægilega 10 stiga forystu. Henni halda þeir svo að mestu út fyrsta leikhlutann, sem endar 22-14. Yfirburðir heimamanna halda svo áfram út fyrri hálfleikinn, en þegar að liðin halda til búningsherbergja eru þeir 13 stigum á undan, 47-34.

Atkvæðamestur fyrir heimamenn í fyrri hálfleiknum var Dean Williams með 14 stig og 4 fráköst. Fyrir KR var það Brandon Nazione sem skilaði mestu, 12 stigum og 5 fráköstum. Lítið bar á lykilleikmann KR Tyler Sabin í þessum fyrri hálfleik, setti aðeins 6 stig úr 5 skotum teknum af vellinum.

Heimamenn gera vel að halda í fenginn hlut í upphafi seinni hálfleiksins. Liðsmenn KR mættu mun aggressívari til leiks eftir hléið og létu finna fyrir sér. Munurinn enn svipaður eftir þrjá leikhluta, 65-53 fyrir Keflavík. Í lokaleikhlutanum ráku heimamenn svo smiðshöggið og sigldu nokkuð öruggum 18 stiga sigur í höfn, 88-70.

Tölfræðin lýgur ekki

Sóknarlega var leikurinn frekar erfiður fyrir KR. Oft er talað um körfubolta sem leik áhlaupa, en fyrir þá var þessi leikur það alls ekki. Mesta áhlaup þeirra í leiknum voru 5 stig á móti 10 stiga áhlaupi sem Keflavík náði.

Atkvæðamestir

Eins og svo oft áður var það Dominykas Milka sem var bestur í liði Keflavíkur, skilaði 22 stigum og 13 fráköstum. Fyrir gestina var Brandon Nazione líflegastur með 24 stig og 7 fráköst.

Sögulegt

KR höfðu fyrir þetta einvígi síðast verið slegnir út tímabilið 2012-13. Þá fóru þeir út í oddaleik á móti verðandi meisturum Grindavíkur. Tveir lykilleikmenn þeirra það tímabilið Helgi Már Magnússon og Brynjar Þór Björnsson tóku einnig þátt í leik kvöldsins, en tölfræði oddaleiksins 2013 má sjá hér.

Síðan þá, 2014, 2015, 2016, 2017, 2018 og 2019 hefur KR verið Íslandsmeistari, en það bæði er einstakur árangur í deildinni, sem og verður það að teljast ólíklegt að verða nokkurntíman leikið aftur.

Hvað svo?

Keflavík mætir sigurvegara einvígis Þórs og Stjörnunnar í úrslitum, en staðan þar er 2-1 fyrir Þór.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Bára Dröfn)

Myndasafn (Róbert Freyr)