Í kvöld fór fram leikur þrjú í undanúrslitaeinvígi KR og Keflavík þar sem komið var að úrslitastundu. Staðan fyrir leik kvöldsins var 2-0 fyrir Keflavík og var KR því með bakið uppvið vegg.

Óhætt er að segja að sigur Keflavíkur hafi verið ansi hreint öruggur í kvöld þar sem liðið náði 10-2 forystu strax á upphafsmínútunum. KR reyndi ýmislegt til að koma sér aftur í leikinn en það hreinlega tókst ekki í dag. Keflavík vann góðan sigur 88-70 og er komið í úrslitaeinvígið þar sem liðið mætir Þór Þ eða Stjörnunni.

Ljóst er að lok þessa tímabils eru ákveðin þáttaskil í íslenskum körfubolta þar sem mikilvægir hlekkir síðustu áratuga leggja skónna á hilluna. Jakob Örn Sigurðarson tilkynnti eftir leik kvöldsins að hann væri hættur körfuboltaiðkunn. Þetta sagði hann í samtali við Vísi.is eftir leik.

„Mér líður rosalega vel í líkamanum en fyrir löngu var ég búinn að ákveða að þetta yrði mitt síðasta tímabil og ég stend við það. Þetta er komið gott og búinn að vera langur ferill.“ sagði Jakob á Vísi og bætti við:

„Þetta er upp og niður, maður reynir bara að hugsa út í það jákvæða á ferlinum og hvað þetta var allt skemmtilegt. Ég reyni bara að vera sáttur,“

Jakob Örn er af fræga 1982 árgangnum með öðrum öflugum leikmönnum. Hann er uppalinn hjá KR og lék með Birmingham-southern háskólanum í Bandríkjunum í fjögur ár við mjög góðan orðstýr. Hann lék í tíu ár í Svíþjóð auk þess að leika á Spáni og Þýskalandi. Hann varð tvisvar Íslandsmeistari með KR árin 2000 og 2009, Jakob varð einnig sænskur meistari með Sundsvall Dragons árið 2011. Jakob á að baki 92 landsleiki með Íslandi og var hluti af landsliðinu á Eurobasket 2015.

Karfan þakkar Jakobi fyrir framlag sitt til íslensks körfubolta og óskar honum velfarnaðar í hverju því sem hann tekur sér fyrir hendur.