Stjarnan hefur ráðið Auði Íris Ólafsdóttir sem þjálfara meistaraflokks kvenna til næstu tveggja ára en liðið leikur í 1. deild.

Auður hefur leikið í meistaraflokki síðan haustið 2009 og var valinn besti varnarmaður Úrvalsdeildar kvenna veturinn 2018-19 er hún lék með Stjörnunni. Á ferli sínum hefur hún tvívegis orðið bikarmeistari auk þess sem hún vann fyrirtækjabikarinn tvisvar. Hún hefur auk þess spilað með yngri landsliðum og á 11 A-landsleiki að baki.

Samhliða leikmannaferlinum hefur Auður Íris þjálfað marga flokka yngri stúlkna síðastliðin 14 ár og unnið að landsliðsverkefnum yngri landsliða í afreks- og úrvalsbúðum KKÍ. 

„Ég hef mikinn áhuga á þjálfun og uppbyggingu í kvennakörfuboltanum og Stjarnan býður upp á einstakt tækifæri til þess,“ segir Auður Íris. „Þar hefur á undanförnum árum verið unnið markvisst starf í yngri stúlknaflokkum sem er að skila gríðarlegum árangri. Verkefnið mitt verður að vinna úr þessum hæfileikum yngri iðkenda eftir því sem þeir skila sér í meistaraflokk í sambland við eldri og reyndari leikmenn. Ég mun leggja áherslu á metnaðarfulla þjálfun og uppbyggilegt umhverfi þar sem leikmenn vilja taka þátt og leggja sig alla fram. Ég ætla okkur að vera komin í flokk þeirra allra bestu innan örfárra ára.“

Auður Íris tekur við af Pálínu Gunnlaugsdóttur sem sjálf tók við af Margréti Sturlaugsdóttur á miðju síðasta tímabili. Stjarnan endaði í sjötta sæti 1. deildarinnar á síðasta tímabili og datt út á móti Grindavík í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.