Stjarnan lagði í kvöld Þór í fjórða leik undanúrslitaeinvígis liðanna.

Með sigrinum náði Stjarnan að jafna einvígið 2-2 og mun því koma til oddaleiks komandi laugardag 12. júní til þess að skera úr um hvort liðið fer í úrslitaeinvígið gegn Keflavík.

Hérna er meira um leikinn

Karfan spjallaði við þjálfara Stjörnunnar, Arnar Guðjónsson, eftir leik í MGH:

Arnar…ég ætla að þykjast vera einstaklega gáfaður og fullyrða að þú hafir lagt upp þennan leik af stakri snilld! Þið sóttuð mikið inn í teiginn, sérstaklega til að byrja með, þú hefur svo tæplega þurft að segja leikmönnum að gefa allt í þetta, þið voruð upp við vegginn góða og þið nýttuð ykkur hann…veggurinn er harður og vont að lenda á honum?

Ég hringdi nú í einn sérfræðing sem stendur hérna við hliðina á okkur sem sagði að ég væri kominn á botninn, það væri best að spyrna sér í þaðan. Hann var þá eitthvað að rífa kjaft í Færeyjum, nýbúinn að slefa inn sigri þar þannig að ég hlustaði á hann…

Jájá! Hvaða snillingur var það?

Það var dúllan þarna…Sigurður dúlla!

Já einmitt, hann hefur kannski haft rétt fyrir sér?

Nei…við skulum ekki gefa honum það, hann hefur ekki gott af því!

Neinei..! En Arnar, þú ert væntanlega ánægður með þetta, ef þessi leikurinn spilaðist í draumum þínum síðustu nótt þá varð það kannski talsvert í þessa áttina?

Nei…ég er bara feginn að hafa unnið sko…ég er ekkert að fara að segja eitthvað gáfulegt núna held ég, maður er bara svona að reyna að ná áttum, við erum fegnir að hafa unnið, þetta var erfiður leikur og fegnir að fá annan séns á laugardaginn.

Einmitt. Tekuru undir það að ykkur hafi tekist að brjóta svolítið tempóið hjá Þór og hugsanlega hægja svolítið á leiknum…?

Ég bara þarf að sjá tölfræðina yfir það…við fengum a.m.k. ekki á okkur 120 stig eða hvað það var…

Þeir skora náttúrulega helmingi minna en í síðasta leik, Arnar…það er athyglisvert…

Jájá, en það er líka áhyggjuefni, þeir eru betra sóknarlið en þeir sýndu í dag og við þurfum að vera klárir fyrir það á laugardaginn.

Já, það má kannski segja að það sé áhyggjuefni fyrir ykkur að þeir spiluðu líka rosalega góða vörn mestallan leikinn og sóknin var….

…hún var stirð…

…já, hún var stirð meira og minna allan leikinn.

Já…þar ertu gáfaður! Hárrétt hjá þér! Þar kom það.

Maður er alltaf að reyna að segja eitthvað gáfulegt, þýðir ekkert annað. En það er oddaleikur og ég og flestir erum ánægð með það. Nú bið ég þig um að koma með eitthvað gáfulegt um oddaleikinn, hvernig sérðu hann þróast?

Það verður algert stríð! Liðið sem leggur meira í hann er liðið sem fer og keppir við Keflavík.

Þá eru kannski alls konar fíniseringar og taktískar pælingar svolítið minni atriði í svona stríðum…?

Jah…það er nú betra að vera með eitthvað plan þegar þú ferð í stríð…þannig að það verða einhverjar taktískar breytingar, það er alveg á hreinu.

Akkúrat, að sjálfsögðu alltaf eitthvað plan…en þetta verður spennandi!

Þetta verður gaman!

Sagði hinn mikli meistari og herforingi Stjörnumanna, Arnar Guðjónsson.