Hávær orðrómur fór af stað í gær þess efnis að leikmaður Þórs Akureyri Srdjan Stjojanovic væri flæktur í veðmálasvindl er varðaði leik félagsins gegn Njarðvík í 20. umferð Dominos deildar karla. Þetta var að sjálfsögðu eins og svo oft er með orðróma, algjörlega óstaðfest, en var þó á allra vörum fyrir leik og frameftir degi.

Þór Akureyri tapaði leiknum nokkuð örugglega fyrir Njarðvík, 97-75, en Srdjan skilaði nokkuð góðu framlagi í leiknum, 17 stigum úr 12 skotum. Orðrómurinn fékk samt sem áður að halda áfram eftir leik í hlaðvarpinu The Mike Show, þar sem talað var um að gengið hefði verið á leikmanninn á fundi fyrir leik og hann inntur um svör við þessu hugsanlega veðmálasvindli sem hann var flæktur í.

Umsjónarmaður The Mike Show og sá er lét orðin falla í þættinum, Hugi Halldórsson, sendi frá sér tilkynningu rétt í þessu þar sem hann, en hana má lesa hér fyrir neðan.

Yfirlýsing:

Vegna fréttar karfan.is vil ég ítreka orð mín í þættinum The Mike Show að það er mín einlæga ósk sé einhver grunur um að eitthvað saknæmt hafi átt sér stað í leik Njarðvíkur og Þórs frá Akureyri verði það rannsakað af réttum aðilum.

Orð mín í umræddum þætti á ekki að skilja á þann veg að verið væri að saka leikman Þórs um veðmálasvindl heldur var átt við að fundur hefði verið tekinn með leikmanni Þórs Akureyri og ekkert hafi verið við hans frammistöðu að athuga. Einnig ítreka ég orð mín, sem féllu síðar í þættinum, að það er von mín að þessi orðrómur „sé eins mikill hestaskítur og hann hljómar“.

Ég harma og biðst afsökunar á að hafa gefið í skyn að umræddur leikmaður hafi eitthvað saknæmt unnið og þannig verið dreginn inní þessa umræðu. Af þessum sökum bið ég Stradan Stojanovic, kkd. Þórs og þá sem að honum og liðinu standa afsökunar.

Því miður kemur reglulega upp hávær orðrómur um veðmálasvindl sem á ekkert skylt við íþróttir en sem betur fer hefur slíkur orðrómur ekki verið sannreyndur. Hins vegar ber að hafa augu og eyru opin við þessu meini sem er því miður stærri partur af íþróttum en fólk grunar.

Virðingafyllst,
Hugi Halldórsson