Fjölnir tók á móti Val í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Dominosdeildar kvenna. Leikurinn var jafn og spennandi allan leikinn en Fjölni vantaði aðeins upp á til að ná Valsstúlkum á lokasprettnum. Valur vann leikinn 76-83 og eru þá 2-0 í rimmunni.

Fyrir leikinn var ljóst að Guðbjörg Sverrisdóttir væri meidd á putta og því ekki með í kvöld.

Gangur leiksins

Liðin byrjuðu bæði að spila sterka vörn og stigaskor leiksins var lengi mjög lágt. Fjölnir hafði forystu í fyrstu en Valskonur komust yfir eftir því sem leið á leikinn.

Það virtist sem hvorugt lið gæti nýtt færin sín vel í fyrri hálfleik og það komu kaflar hjá báðum liðum þar sem þau annað hvort klikkuðu á opnu færi eða töpuðu boltanum klaufalega. Fjölnir var ekki að fá mikið framlag frá bekknum sínum og það sáust fljótt þreytumerki á aðalpóstum liðsins í hálfleik. Heimastúlkur voru þó ekki nema þrem stigum á eftir deildarmeisturunum þegar liðin héldu inn í klefa í hálfleik, 33-36.

Áfram héldu liðin að passa illa upp á boltann hjá sé og voru búin að tapa tveimur boltum hvort strax á fyrstu tveimur mínútum seinni hálfleiksins. Þá kom upp atvik sem kveikti aðeins upp í Valsstúlkum. Helena Sverrisdóttir braut á Linu Pikciuté og fékk olnboga frá Linu á sömu andrá. Helenu stóð ekki á sama um það og uppskar tæknivillu fyrir mótmæli. Í eftirleik þess fóru bæði liðin að spila af meiri hörku og sóknarnýtingin batnaði.

Fjölnir missti Val aðeins frá sér í lok þriðja og byrjun fjórða leikhluta en héldu sér inni í leiknum á hörku og góðum körfum. Þegar fjórar mínútur lifðu leiks voru þær gulklæddu ennþá inni í leiknum og gerðu sitt ítrasta til að brúa bilið. Það tókst hins vegar ekki og þær urðu að sætta sig við sjö stiga tap á sínum heimavelli, 76-83.

Lykillinn

Það var gríðarlega mikil dreifing á gæðunum í liði Valsara í kvöld en þær þrjár sem stóðu sig best voru þær Helena Sverrisdóttir og Kiana Johnson. Helena skoraði 11 stig, tók 8 fráköst, gaf 9 stoðsendingar og stal 2 boltum. Kiana skoraði 15 stig, tók 8 fráköst, gaf 10 stoðsendingar og stal 6 boltum. Fyrir utan þær tvær kom Ásta Júlía Grímsdóttir sterk inn af bekknum með 18 stig og 6 fráköst á 18 mínútum spiluðum.

Hjá Fjölni var Ariel Hearn skuggalega nálægt fjórfaldri tvennu með 26 stig, 9 fráköst, 9 stoðsendingar og 8 stolna bolta. Þar fyrir utan átti hún 3 varin skot og klikkaði ekki á vítaskoti í 12 tilraunum í leiknum.

Tölfræðin lýgur ekki

Þessi leikur snerist mikið um vörnina. Liðin hittu ekkert sérstaklega vel í kvöld utan af velli (39% hjá Fjölni og 41% hjá Val) og töpuðu mikið af boltum vegna stífrar varnar, 18 tapaðir boltar hjá Fjölni og 16 hjá Val.

Munurinn á liðunum í kvöld var að öllum líkindum framlag bekkjarins. Bekkurinn hjá Fjölni skilaði aðeins þremur stigum gegn 24 hjá Val.

Kjarninn

Þá hefur Valur tekið sér tveggja sigra forystu í einvíginu gegn Fjölni í undanúrslitum Dominosdeildar kvenna. Þær rauðklæddu þurfa aðeins einn sigur í viðbót til að komast áfram í úrslitarimmuna. Valsarar hafa byrjað hægt í báðum leikjum en það hefur ekki komið að sök þegar þær loksins fara í gang. Þær áttu þó erfiðara með að skora í þessum leik og gætu alveg misst leik ef að þær taka sér of langan tíma að mæta til leiks í þriðju viðureign liðanna næsta föstudag.

Fjölnisstúlkur voru sorglega nálægt því að jafna séríuna í kvöld en gátu ekki klárað dæmið. Það virtist mæða of mikið á byrjunarliðsmönnum sem tóku slæmar ákvarðanir á lokametrunum sökum þreytu að því er virtist og gerðu þannig út um leikinn. Þær verða núna að fara yfir mistökin og vonast til að þær geti stolið útisigri í næsta leik, annars eru þær farnar í sumarfrí.

Tölfræði leiksins

Myndasafn: Bára Dröfn

Viðtöl eftir leik

Helena Sverrisdóttir, lykilmaður Valsara í leiknum.

Ólafur Jónas, þjálfari Vals, eftir þrautsóttan sigur.

Ariel Hearn, besti leikmaður Fjölnis, eftir leikinn.

Halldór Karl, þjálfari Fjölnis, eftir erfitt tap.