Það fór fram gríðarlega áhugaverður leikur í Ólafssal á Ásvöllum í kvöld þegar Haukakonur fengu topplið Vals í heimsókn. Valskonur á toppnum með 30 stig en Haukar í þriðja sæti deildarinnar með 26 stig. Fyrir leik var búist við sigri Valskvenna sem hafa verið ógnvænlega sterkar upp á síðkastið þó svo að Haukarnir hafi sýnt vaxandi leik.

Leikurinn var jafn og spennandi allan fyrri hálfleikinn. Í byrjun síðari hálfleiks náðu Haukakonur þó ágætis forystu. Hlíðarendakonur settu þá vörnina í annan gír og náðu upp forystunni og tóku frumkvæðið. Munurinn var þó einungis 2-4 stig lengst af þangað til Valur tók góðan kafla í lokin og kláruðu leikinn. Lokatölur 58-66.

Stigahæst Valskvenna var Kiana Johnson með 21 stig en hjá Haukum skoraði Aleysha Lovett 15.

Tölfræðin Lýgur Ekki

Þessi leikur var ekki mikið fyrir augað, og eins og með marga þannig leiki þá réðist hann á baráttunni. Þar höfðu Valskonur betur, þær sigruðu frákastabaráttuna nokkuð örugglega 53-40 og stálu mikið fleiri boltum en Haukarnir. 10 stolnir hjá Val gegn 4 hjá Haukum.

Bæði liðin skutu mjög illa fyrir utan enda náði hvorugt liðið að ná 15% þriggja stiga nýtingu.

Vörnin

Eftir mjög jafnan fyrri hálfleik náðu Haukar allt að 8 stiga forystu. Þá setti Valsvörnin í gír sem ekkert annað lið í deildinni býr yfir á þeim helmingi vallarins. Vörnin var allt í senn skynsöm, aggressív og hugmyndarík. Valur hefur á að skipa leikmönnum með háa körfuboltagreindarvísitölu sem gerir slíka vörn mögulega. Algerlega frábært að sjá. Þarna léku leikmenn eins og Helena Sverrisdóttir, Kiana Johnson og Hildur Björg Kjartansdóttir lykilhlutverk.

Spurningum svarað?

Að marga mati er það Haukaliðið sem á mestan möguleika á að velta Valskonum úr sessi. En er það rétt? Fréttaritari Körfunnar var með þessa spurningu bakvið eyrað við áhorf á leiknum og því miður fyrir Hafnfirðingana er ennþá þannig munur á þessum tveimur liðum þegar kemur að því að klára leiki að svarið er hreinlega nei, Haukarnir eiga ekki möguleika á að slá út Valslið með allar með.

Best

Kiana Johnson var best á vellinum í dag og daðraði við þrennuna. 21 stig, 10 stoðsendingar og 9 fráköst. Þá voru stóru stelpurnar hjá Val mjög öflugar í fráköstunum. Þær Ásta Júlía, Hildur Björg og Helena stjórnuðu ferðinni þar.

Tölfræði leiks

Umfjöllun / Sigurður Orri