Tímabil bakvarðar Stjörnunnar Mirza Sarajlija er samkvæmt heimildum Körfunnar líklega á enda. Mirza meiddist á hnéi í síðasta leik liðsins gegn Grindavík í átta liða úrslitum Dominos deildar karla. Samkvæmt heimildum munu læknar halda að um meiðsl á liðþófa sé að ræða, en frekari rannsóknir eru framundan.

Ljóst er að mikið skarð er hoggið í leikmannahóp Stjörnunnar ef Mirza verður ekki meira með, en hann hefur í 23 leikjum fyrir félagið skilað 14 stigum, 3 fráköstum og 4 stoðsendingum að meðaltali í leik.

Staðan í einvígi Stjörnunnar og Grindavík er 1-1, en næsti leikur seríunnar er komandi laugardag 22. maí í MGH í Garðabæ.