Þór Akureyri lögðu nafna sína í Þorlákshöfn – Eyfirðingar öruggir í deildinni og eygja von um úrslitakeppni

Þór Akureyri lögðu heimamenn Þór í Þorlákshöfn í kvöld í 21. umferð Dominos deildar karla, 103-108. Eftir leikinn er Þór Akureyri í 8. sæti deildarinnar með 18 stig á meðan að Þór er í 2. sætinu með 28 stig.

Fyrir leik kvöldsins hafði Þór Akureyri tapað fjórum leikjum í röð og höfðu því dregist niður í fallbaráttuna í síðustu umferðum. Með sigrinum í kvöld tryggðu þeir þó veru sína í deildinni á næsta ári og eru líklegir til þess að vera með í úrslitakeppninni.

Gangur leiks

Heimamenn voru skrefinu á undan í upphafi leiks, leiddu með 4 stigum eftir fyrsta leikhluta, 33-29. Undir lok fyrri hálfleiksins ná þeir svo að halda í forystu sína og eru 5 stigum yfir þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 64-59.

Gestirnir koma svo sprækari til leiks í seinni hálfleik og ná fljótlega að snúa taflinu sér í vil og eru 2 stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 81-83. Í fjórða leikhlutanum ná þeir svo að vera skrefinu á undan og sigra að lokum með 5 stigum, 103-108.

Atkvæðamestir

Larry Thomas var atkvæðamestur heimamanna í leik kvöldsins með 30 stig, 5 fráköst og 8 stoðsendingar. Fyrir gestina að norðan var það Dedrick Basile sem dró vagninn með 33 stigum og 12 stoðsendingum.

Hvað svo?

Í lokaumferð deildarkeppninnar komandi mánudag 10. maí mætir Þór Akureyri liði Hauka í Höllinni og Þór heimsækir Njarðvík í Njarðtaksgryfjuna.

Tölfræði leiks