Stórsigur Grindavíkur er Stjarnan safnaði tæknivillum

Í gær áttust við í 8. liða úrslitum 1. deildar kvenna Grindavík og Stjarnan en þessi lið mættust einnig í síðustu viku þar sem Grindavík vann öruggan sigur 101-55. Það mátti því fyrir fram búast við auðveldum sigri Grindavíkur. En Stjörnustelpur ætluðu augljóslega að bæta sinn leik frá því í síðustu viku og mættu vel tilbúnar og í raun var eins og barátta þeirra hefði komið Grindavík á óvart eða hugsanlega verið vanmat í gangi því Grindavík var ekki tilbúið í slaginn í upphafi. Jafnt var á öllum tölum þar til Sædís Gunnarsdóttir kom öflug inn á bekknum og setti tvo þrista í lok leikhlutans og tryggði að Grindavík var 6 stigum yfir eftir 1. leikhluta. Grindavík hristi af sér slæma byrjun og sýndu sitt rétta andlit a.m.k. sóknarlega í 2. leikhluta sem þær unnu 30-21 og staðan 48-33 í hálfleik þar sem Stjarnan var að spila virkilega vel þrátt fyrir að vera 15 stigum undir. En í seinni hálfleik fjaraði hægt og rólega undan Stjörnunni. Bæði var Grindavík farið að spila af eðlilegri getu ásamt því sem orka þjálfara Stjörnunnar og í framhaldinu leikmanna liðsins fór meira og meira í dómara leiksins en þeirra eigin frammistöðu. Það endaði með því að Pálína Gunnlaugsdóttir, þjálfari stjörnunnar, fékk aðra tæknivilluna sína í þriðja leikhluta og var því send úr húsi. Alexandra Sverrisdóttir, fyrirliði Stjörnunnar og þeirra reyndasti leikmaður, fylgdi síðan á eftir þegar hún fékk tvær tæknivillur í röð snemma í fjórða leikhluta. Staðan var þá 73-46 og þá má segja að leikur Stjörnunnar hafi hrunið þrátt fyrir að leikmenn liðsins hafi barist áfram. Grindavík gekk á lagið og kláraði leikinn með 21-3 áhlaupi næstu 6 mínúturnar og lokatölur voru 94-49.

Atkvæðamestar í sigurliði Grindavíkur voru Hulda Björk Ólafsdóttir með 24 stig, 7 fráköst og 6 stolna. Hekla Eik Nökkvadóttir sem var nálægt enn einni þrennunni en hún var með 15 stig, 10 stoðsendingar og 9 fráköst og svo Sædís Gunnarsdóttir sem kom öflug af bekknum og setti 17 stig, þar af 5/9 í þriggja stiga. Jannon Otto bætti síðan við 16 stigum og 12 fráköstum.

Hjá Stjörnunni var Alexandra Eva sverrisdóttir með 14 stig, Marta Ellertsdóttir kom öflug inn af bekknum og setti 10 stig og Bergdís Lilja Þorsteinsdóttir var með 6 stig og 13 fráköst.

Ég verð þó að misnota aðstöðu og fara yfir tæknivillur leiksins. Pálína Gunnlaugsdóttir þjálfari liðsins fékk tvær tæknivillur, Danielle Rodriguez aðstoðarþjálfari fékk eina tæknivillu og Alexandra Eva Sverrisdóttir leikmaður Stjörnunnar fékk tvær tæknivillur. Að mati undirritaðs bera dómarar leiksins ákveðna ábyrgð á þessum fjölda tæknivilla. Hugsanlega voru tæknivillurnar allar réttmætar en þau sem hafa fylgst með körfubolta lengi vita að bestu dómararnir eru þeir sem geta séð til þess að svona aðstæður koma ekki upp. Að mati undirritaðs vantaði því aðeins upp á hæfni dómara til að koma í veg fyrir svona aðstæður, t.d. tel ég að Pálína hafi átt að fá aðvörun fyrir sína fyrstu tæknivillu líkt og Ólöf Helga Pálsdóttir, þjálfari Grindavíkur fékk.

Það fríar þó ekki leikmenn og þjálfara ábyrgð. Þjálfarar og leikmenn bera ábyrgð á sinni hegðun. En þar sem undirrituð hefur fylgst óvenju vel með 1. deild kvenna síðustu 20 ár þá eiga þjálfarar og leikmenn að vera búin að átta sig á því að bestu dómarar landsins eru að dæma í Dominos-deildunum sem þýðir að gæði dómara í 1.deild kvenna eru lakari þótt þeir reyni allir að vinna sitt starf vel. Þess vegna skil ég ekki hvernig það getur komið þjálfurum og leikmönnum á óvart að dómgæslan sé ekki upp á besta máta. Í raun eru þetta fullkomnar aðstæður fyrir þjálfara og leikmenn til að æfa sig í æðruleysisbæninni og einbeita sér að sínum leik og einfaldlega gera ráð fyrir því að dómgæslan sé léleg. Þetta er svipað og knattspyrnumenn gera alltaf ráð fyrir því að það er rok á knattspyrnuvellinum í Grindavík. Síðan ef gæði dómgæslunnar er góð eða logn á vellinum þá er það einfaldlega ánægjulegur bónus.

Að lokum langar mig einnig að vekja athygli á því að rannsóknir hafa staðfest að hávær rödd kvenmanna pirrar fólk meira en hávær rödd karlmanna. Það er mín upplifun, óháð þessum leik, að karlkyns þjálfarar komist upp með meira almennt „nöldur“ þar sem tóntegund radda þeirra er öðruvísi en tóntegund kvenna. Í ljósi þeirra miklu jafnréttisbyltingar sem nú er að eiga sér stað í samfélaginu þá hvet ég dómarastéttina til að skoða þessi mál hjá sér. Við þekkjum það öll að þjálfarar og leikmenn með ákveðna virðingu geta komist upp með aðeins meira „nöldur“ en nýliðar en er hugsanlegt að tóntegund kven-þjálfara sé að pirra dómara meira en karldómara? Ég vil samt taka skýrt fram að ég er ekki að saka neinn dómara um óheiðarleika heldur einfaldlega að benda á að rannsóknir sýna að við bregðumst öðruvísi við háværum kvenmannsröddum en karlmannsröddum og hugsanlega sé þarna blind hlið er dómarar þurfa að hafa opin augu fyrir. 

Tölfræði leiks

Umfjöllun / Bryndís Gunnlaugsdóttir