Tindastóll tók á móti Stjörnunni í lokaumferð Dominos deildar karla í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld. Vegna Covid-19 takmarkana í Skagafirði fór leikurinn fram án áhorfenda.

Leikurinn var jafn og spennandi frá upphafi til enda en Stjarnan var sterkari á lokasprettinum og landaði sigri eftir framlengingu. Fyrsti leikhluti var kaflaskiptur, 4-0 kafli heimamanna fór yfir í 0-8 kafla gestanna og sóknarvandræði Tindastólsmanna virtust ætla að halda áfram frá síðustu leikjum. Gestirnir gengu á lagið og leiddu 13-20 eftir fyrsta leikhluta. Heimamenn komu sterkir inn í annan leikhlutann, voru grimmir í vörn og sóknin fór að ganga betur, Jaka kom þar sterkur inn. Stjarnan komst í 36-43 þegar rúmar 2 mínútur voru til hálfleiks en troðsla frá Antanas og 5 stig frá Tomsick jöfnuðu leikinn 43-43. Gestirnir leiddu svo með einu stigi í leikhléi.

Þriðji leikhluti var mjög jafn en Stjarnan náði að rykkja aðeins frá heimamönnum og leiddi með 6 stigum fyrir lokafjórðunginn 62-68. Sama var uppi á teningnum í fjórða leikhluta en Tindastóll var þó mun sterkari, söxuðu á forskotið og komust yfir þegar tæpar 3 mínútur voru eftir. Þristur frá Jaka kom heimamönnum svo í vænlega stöðu 86-81 þegar 1:16 var eftir en Stólar fóru illa að ráði sínu á lokamínútunni þar sem Stjarnan náði 1-6 kafla sem lauk með að Ægir Þór jafnaði þegar 3.4 sekúndur lifðu leiks. Heimamenn klúðruðu lokasókninni illa og gestirnir voru svo mun sterkari í framlengingunni sem þeir unnu 9-15 og leikinn 96-102. Úrslitin þýða að Tindastóll höktir inn í úrslitakeppnina í 8. sæti og mætir þar Keflavík og miðað við spilamennsku þessara liða undanfarið verður það auðvelt sóp hjá deildarmeisturunum.

Hjá Tindastól var Flenard Whitfield framlagshæstur með 30 punkta, setti 16 stig og reif niður 13 fráköst. Tomsick var stigahæstur með 23 stig og Jaka var öflugur með 22 en aðrir voru ekki að bæta miklu við og sérstaklega var erfitt að sjá Pétur Rúnar brenna af 6 þristum. Hjá gestunum var Ægir Þór langbestur með 28 stig, 7 fráköst og 7 stoðsendingar sem skilaði 35 framlagspunktum.

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

Umfjöllun, myndir / Hjalti Árna