Snæfell lagði Skallagrím í Borgarnesi í dag í 19. umferð Dominos deildar kvenna, 67-87. Eftir leikinn er Snæfell í 7. sæti deildarinnar með 8 stig á meðan að Skallagrímur er í 5. sætinu með 16 stig.

Gangur leiks

Leikurinn var nokkuð jafn og spennandi á upphafsmínútunum, gestirnir úr Stykkishólmi þó þremur stigum á undan eftir fyrsta leikhlutann, 16-19. Undir lok fyrri hálfleiksins ganga þær svo á lagið og eru komnar með 11 stiga forystu þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 29-40.

Í upphafi seinni hálfleiksins ná heimakonur svo aðeins að bíta frá sér, en eru enn 7 stigum undir eftir þrjá leikhluta, 53-60. Í lokaleikhlutanum var þetta svo nokkuð öruggt hjá Snæfell, sigra að lokum nokkuð þægilega, 67-87.

Kjarninn

Með sigri í dag tryggir Snæfell sér veru í deildinni á næsta tímabili. Þó þær tapi þeim tveimur leikjum sem eftir eru og KR vinni báða sína, jafnast liðin aðeins að stigum, en vegna innbyrðisstöðu verður Snæfell alltaf í 7. sætinu og KR því 8. Þá hafði leikurinn lítið sem ekkert gildi fyrir stöðu Skallagríms í deildinni, eru á stað þar sem þær geta hvorki fallið, né komist í úrslitakeppnina. Geta hinsvegar tapað 5. sætinu til Breiðabliks, en það er spurning hvort það skipti nokkurn einhverju máli.

Atkvæðamestar

Haiden Denise Palmer var atkvæðamest í liði Snæfells í dag, skilaði 22 stigum, 10 fráköstum og 14 stoðsendingum. Fyrir Skallagrím var það Sanja Orozovic sem dró vagninn með 22 stigum, 11 fráköstum og 6 stoðsendingum.

Hvað svo?

Snæfell heimsækir næst topplið Vals komandi þriðjudag 4. maí. Skallagrímur leikur degi seinna gegn Breiðablik í Smáranum.

Tölfræði leiks