ÍR lagði Stjörnuna í gærkvöldi í 20. umferð Dominos deildar karla, 97-95. Eftir leikinn er ÍR í 9. sæti deildarinnar með 16 stig á meðan að Stjarnan er í 3. sætinu með 26 stig. Eins skrýtin og deildin er þetta árið, þá má segja að ÍR hafi með sigrinum farið langleiðina með að bæði tryggja sæti sitt í deildinni og halda sér inni í myndinni hvað varðar sæti í úrslitakeppninni.

Hérna er meira um leikinn

Fyrir leik gærkvöldsins hafði ÍR tapað fimm leikjum í röð, en síðasti sigur þeirra kom gegn Hetti þann 11. mars síðastliðinn. Því um góð ráð dýr að ræða fyrir Breiðholtsfélagið fyrir leik gærdagsins.

Þjálfari liðsins Borche Ilievski sendi liði sínu nokkuð sterk skilaboð fyrir leikinn, þar sem hann meðal annars hvetur þá til þess að verðskulda sigurinn og vera stoltir, því verið sé að fylgjast með þeim. Skilaboðin er í heild hægt að lesa hér fyrir neðan, en þau eru birt með góðfúslegu leyfi allra aðila hluteigandi.

“Hverjir sem við erum eða hvað sem við gerum, þá ættum við alltaf að reyna að gera okkar besta. Gerðu þitt besta, alveg sama hvað og þá færð þú sjálfstraust og getur verið viss um að þú eigir skilið að vinna, burtséð frá því huglægu mati annarra. Við erum spegilmynd vinnu okkar og okkar eigin mælistika á árangur, okkar arfleifð, er það sem við skiljum eftir okkur. Verðskuldaðu sigurinn, erfiði þitt mun endurspegla þau gæði sem þú leitast að. Það verður að gera það og þú verður að gera það, settu smá stolt í þetta og gerðu þetta vel. Augun eru á okkur, gerðu eins vel og þú getur, verðskuldaðu sigurinn”