Valur lagði Hauka í kvöld í lokaleik 20. umferðar Dominos deildar karla, 87-79. Valur er eftir leikinn í 4. sæti deildarinnar með 22 stig á meðan að Haukar eru í 12 sætinu með 12 stig.

Hérna er meira um leikinn

Karfan spjallaði við Sævald Bjarnason, þjálfara Hauka, eftir leik í Origo Höllinni.

Þið mætið í þennan leik með sjálfstraust eftir góða sigra að undanförnu. Það sást alveg til að byrja með og þetta leit ágætlega út…en svo hertu Valsarar tökin eftir því sem á leið og sýndu kannski hversu gott varnarlið þeir eru og þið funduð ekki nógu góðar lausnir sóknarlega…?

Já ég er sammála því. Í fyrsta lagi er Valur bara með mjög gott lið, voru búnir að vinna 6 í röð þar til þeir töpuðu fyrir Þór Þorlákshöfn sem flestir tapa fyrir. Þeir eru bara góðir, með hörku leikmenn og náðu að þétta varnarleikinn og verðum að gefa þeim kredit fyrir það. En við vorum alltof mikið að drippla fannst mér og missa svolítið tempóið í fjórða. Við gerðum mjög vel hérna á köflum en því miður var það ekki nóg. Við töpuðum hérna með 8 stigum gegn mjög góðu liði, það er engin skömm að því og bara áfram gakk sko.

Nákvæmlega. Það eru 2 leikir eftir, hverjir eru andstæðingarnir?

Við eigum Hött eftir heima og svo Þór Akureyri úti í síðustu umferðinni á mánudaginn. Fyrir okkur er þetta bara að fylla aftur á bollann og reyna að gera áfram vel. Það hefur verið flottur rytmi í okkur og við þurfum bara að ná að sýna aðrar góðar 40 mínútur á móti Hetti á fimmtudaginn.

Akkúrat. Það að vinna síðustu 2 leikina dugir til að halda sætinu sennilega eða hvað…? Það er ómögulegt að reikna þetta út eiginlega…!?

Jájá, það er Haukar-Höttur á fimmtudaginn, ég veit ekki hvernig fór hjá Hetti í kvöld en þetta er bara lykilleikur. En við verðum bara að sjá hvernig þetta þróast og svo kemur þetta bara í ljós í lokin!

Viðtal / Kári Viðarsson