Sævaldur Bjarnason mun líklega ekki þjálfa lið Hauka í fyrstu deild karla á næsta tímabili, en þeir féllu þangað úr Dominos deildinni fyrr í mánuðinum. Staðfesti hann þetta í samtali við Körfuna fyrr í dag. Sævaldur tók við sem aðalþjálfari liðsins er það var í slæmri stöðu um miðjan mars eftir að liðið sagði upp samningi sínum við Israel Martin og blés hann lífi í þá á lokaspretti deildarinnar þó svo að liðið hafi á endanum ekki náð að halda sér í deildinni. 

Samingur Sævaldar er á enda við Hafnarfjarðarfélagið, sem enn hefur ekki tilkynnt hver það verði sem muni halda áfram með liðið. Samkvæmt Sævaldi mun hann vera að skoða sín mál þessa dagana og útiloki ekki neitt. Hann ætli sér að halda áfram að þjálfa, en ekki sé ljóst á þessum tímapunkti nákvæmlega hvar það verður. Segist hann hafa átt einhverjar óformlegar viðræður við Hauka, en að þær hafi ekki skilað samning milli hans og félagsins. 

Sævaldur er að sjálfsögðu gífurlega reynslumikill þjálfari sem verið hefur með lið í efstu deildum karla og kvenna síðustu áratugi, sem og verið öflugur í þjálfun yngri flokka. Þá hefur hann einnig verið með yngri landslið Íslands, en hann er einn aðeins átta íslenskra þjálfara sem lokið hefur FECC námi FIBA