Öruggur Valssigur í Blue höllinni

Keflavík tók á móti deildarmeisturum Vals í Blue höllinni í lokaumferð Domino´s deildar kvenna í dag. Sigur gestanna var sannfærandi og í raun aldrei í hættu. Lokatölur 68-81.

Byrjunarlið Keflavíkur: Daniela Wallen, Anna Ingunn, Emelía, Katla, og Salbjörg.

Byrjunarlið Vals: Kiana Johnson, Dagbjört, Helena, Guðbjörg og Hildur.

Gangur leiksins

Heimakonur byrjuðu leikinn af krafti og komust í 7-2 áður en Valskonur skiptu um gír. Þær settu niður þrjá þrista í röð og skyndilega staðan orðin 7-11. Jafnræði var með liðunum restina af leikhlutanum þar sem Valskonur leiddu að honum loknum 24-27.

Valskonur náðu muninum upp í 10 stig, 27-37, með góðri byrjun í öðrum leikhluta. Keflvíkingar í erfiðleikum með að ráða við Hildi Kjartansdóttur í teignum og gekk illa á hinum enda vallarins að skapa sér körfur. Erna Hákonardóttir kom inn af bekknum með kraft og breytti stöðunni í 32-37 og hafði þá skorað 8 stig fyrir sitt lið á stuttum kafla. Helena Sverrisdóttir var erfið viðureignar í frákastabaráttunni í teig Keflvíkinga og setti næstu 4 stig til að keyra muninn upp í 9 stig 32-41. Valskonur leiddu í hálfleik 37-48 þar sem Hildur Kjartansdóttir var þeirra stigahæst með 13 stig og Kiana Johnson með 12. Hjá Keflavík var Karla Rún Garðarsdóttir komin með 14 stig, þar af 4 þrista og Erna Hákonardóttir 10.

Síðari hálfleikur fór af stað eins og sá fyrri endaði. Liðin skiptust á að skora og munurinn hélst í 8-10 stigum þegar 3. leikhlutinn var hálfnaður. Kaflaskið urðu svo um miðbik leikhlutans þegar Kiana Johnson setti muninn upp í 13 stig þegar hún stal boltanum af Danielu Wallen djúpt á sóknarhelmingi Keflavíkur. Hún óð af stað alla leið af körfunni, fór upp á móti Salbjörgu Sævarsdóttur, setti skotið og dró villuna og fékk vítaskotið að auki. Salbjörg fékk þar með sína 4. villu í leiknum og settist á bekkinn. Salbjörg hafði átt erfitt uppdráttar í leiknum gegn þeim Hildi og Ástu Júlíu og endaði leikinn stigalaus og aðeins með 2 fráköst. Gestirnir leiddu með 16 stigum fyrir lokaleikhlutann  50-66 og lítið sem benti til annars en öruggs sigurs þeirra.

Fjórði leikhlutinn var svo formsatriði fyrir Val að klára þar sem Keflavík fann engan takt sóknarlega. Gestirnir sigldu öruggum 13 stiga sigri í höfn og lokatölur 68-81.

Bestar

Atkvæðamest í liði Vals var Kiana Johnson með 23 stig, 5 stoðsendingar og 4 stolna bolta. Henni næst komu Hildur Björg Kjartansdóttir með 21 stig og Ásta Júlía Grímsdóttir með 15 stig og 8 fráköst.

Hjá Keflavík var Daniela Wallen langatkvæðamest með 23 stig, 18 fráköst, 5 stoðsendingar og 4 stolna bolta. Katla Rún Garðarsdóttir gerði 16 stig og Erna Hákonardóttir 10.

Hvað svo?

Liðin munu bæði leika í úrslitakeppni Domino´s deildarinnar þar sem Valur mætir nýliðum Fjölnis í undanúrslitum á meðan Keflvíkingar leika gegn Haukum sem hafa heimaleikjarétt í þeirri seríu.

Tölfræði leiks

Umfjöllun / Sigurður Friðrik Gunnarsson