Valur lagði Hauka í kvöld í fyrsta leik úrslitaeinvígis Dominos deildar kvenna, 58-45. Valskonur því komnar með yfirhöndina 1-0, en það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki verður Íslandsmeistari.

Gangur leiks

Heimakonur í Val mættu virkilega sterkar til leiks. Ná í fyrsta leikhlutanum að setja 18 stig og halda Haukum í aðeins einni körfu, 2 stigum. Haukakonur ná vopnum sínum í öðrum leikhlutanum, fara að setja stig á töfluna, en eru samt 14 stigum undir þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 30-16.

Með nokkuð góðu áhlaupi undir lok þriðja leikhlutans koma Haukakonur forystu heimakvenna niður í 10 stig fyrir lokaleikhlutann, 43-33. Undir lokin gerðu heimakonur svo vel í að sigla að lokum nokkuð öruggum 13 stiga sigri í höfn, 58-45.

Kjarninn

Valsliðið var gífurlega sterkt á upphafsmínútum leik kvöldsins. Náðu gjörsamlega að stoppa allt varnarmegin og sóknin þeirra var nógu góð til að þær næðu að skapa sér þægilega forystu. Gerðu einnig vel að verjast áhlaupi Hauka seinna í leiknum. Haukakonur náðu samt alveg að standa í þeim í þrjá leikhluta af fjórum í kvöld og hver veit hvað hefði geta orðið ef þær hefðu komið betur inn í leikinn. Til þess að gera þetta að spennandi einvígi verða Haukakonur að skjóta boltanum betur og taka fleiri fráköst. Ef þær gera það ekki þá verður þetta nokkuð öruggur sópur fyrir Valskonur.

Tölfræðin lýgur ekki

Oft verið vandamál hjá Haukum í vetur að taka ekki fleiri fráköst, en Valur gjörsamlega slátraði þeirri baráttu í kvöld. Valskonur tóku 55 fráköst í leik kvöldsins á móti aðeins 38 hjá Haukum.

Atkvæðamestar

Kiana Johnson var best í liði Vals í dag með 19 stig, 11 fráköst, 6 stoðsendingar og 4 stolna bolta. Fyrir Hauka var það Alyesha Lovett sem dró vagninn með 13 stigum, 7 fráköstum og 6 stolnum boltum.

Hvað svo?

Næsti leikur liðanna er komandi sunnudag 30. maí kl. 20:15 í Ólafssal í Hafnarfirði.

Hérna eru leikdagar lokaúrslitanna

Tölfræði leiks

Viðtöl / Helgi Hrafn