Valur lagði nýliða Fjölnis í kvöld í fyrsta leik undanúrslitaeinvígis liðanna í úrslitakeppni Dominos deildar kvenna, 90-49. Valur leiðir einvígið því 1-0, en það lið sem vinnur fyrst þrjá leiki kemst í úrslit.

Fyrir leik

Liðin höfðu í þrígang mæst áður í vetur. Valur hafði haft nokkuð öruggan sigur í tveimur þeirra, en Fjölnir vann einn leikjanna, sem reyndar fór fram í október á síðasta ári.

Gangur leik

Leikurinn fór nokkuð fjörlega af stað. Heimakonur í Val skrefinu á undan fyrstu mínúturnar og leiddu með 4 stigum eftir fyrsta leikhlutann, 23-19. Í öðrum leikhlutanum hægist eilítið á leiknum og heimakonur ganga á lagið. Með virkilega sterkum varnarleik ná þær að byggja sér upp þægilega forystu, munurinn 17 stig þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 43-26.

Í upphafi seinni hálfleiksins gera heimakonur svo út um leikinn. Vinna þriðja leikhlutann með 19 stigum, 30-11 og eru því 36 stigum yfir fyrir lokaleikhlutann. Eftirleikurinn nokkuð auðveldur að er virtist, Valur sigrar að lokum með 41 stigi, 90-49.

Kjarninn

Það á ekkert lið á landinu breik í þetta Valslið eins og það var í kvöld. Náðu gjörsamlega að kæfa allt sem Fjölnir reyndi á sóknarhelmingi vallarins og spila nógu góða sókn til þess að vinna þetta þægilega. Fyrir nýliðana voru alltof margir tapaðir boltar, þær gáfu alltof mörg sóknarfráköst og voru agalegar í að verjast hraðaupphlaupum (sem mörg hver komu eftir tapaða bolta) Ef þær ætla að eiga einhvern, minnsta, sjéns í þessu einvígi, þá verða þær líka að fá betra framlag frá atvinnumönnum sínum, sem léku líklega sinn versta leik á tímabilinu í kvöld.

Tölfræðin lýgur ekki

Valur vinnur frákastabaráttu leiksins nokkuð afgerandi, 56-39. Af þeim tóku þær 16 sóknarfráköst á móti aðeins 8 hjá Fjölni.

Atkvæðamestar

Kiana Johnson var best í liði Vals í kvöld með 22 stig, 8 fráköst og 9 stoðsendingar. Fyrir nýliða Fjölnis var það Lina Pikciuté sem dró vagninn með 13 stigum og 2 fráköstum.

Næsti leikur

Annar leikur einvígis liðanna er komandi mánudag 17. maí kl. 18:30 í Dalhúsum.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Eygló Anna)