Valsmenn tóku á móti sjóðheitum Grindvíkingum, sem höfðu unnið þrjá leiki í röð, að Hlíðarenda í kvöld í lokaumferð deildarkeppninnar. Valsmenn einnig verið á góðu róli undanfarið en töpuðu gegn Keflavík í síðustu umferð.En það voru Valsmenn sem voru heilt yfir mun sterkari í þessum leik, þrátt fyrir frekar slakan fyrri hálfleik, og þeir sigldu heim í höfn öruggum sigri, 91-76.

Nánar má lesa um leikinn hér.

Kristófer Acox var sáttur eftir leik og sagði sína menn hafa sýnt mun betri leik í seinni hálfleik en í þeim fyrri er Karfan ræddi við hann eftir leik kvöldsins.

“Pavel tók sig til og hélt smá ræðu yfir okkur í hálfleik um það hvernig spila ætti varnarleikinn og það hlusta allir á Pavel. Við mættum mjög ákveðnir til leik í síðari hálfleik og sýndum hvað í okkur býr, fyrst og fremst varnarlega, en annars var sóknarleikurinn hjá okkur líka góður þá. Ég er bara ánægður með frammistöðuna í vetur; við höfum verið á góðu skriði að undanförnu og vonandi höldum við áfram á þessari braut í úrslitakeppninni, en við vitum að vörnin verður að vera sterk. Svo verður spennandi að mæta gömlu félögunum úr KR í fyrstu umferð – þeir eru með hörkulið, en við erum nú svo sem með nokkra leikmenn sem þekkja hvernig á að vinna í úrslitakeppninni og ég hlakka mjög til hennar.”

Viðtal: Svanur Snorrason