KR lagði heimamenn í Val í kvöld í oddaleik átta liða úrslita einvígis liðanna í Dominos deild karla, 86-89. Staðan var 2-2 fyrir leik kvöldsins, en allir höfðu leikir unnust á útivelli í seríunni.

Gangur leiks

Það voru gestirnir úr Vesturbænum sem byrjuðu leik kvöldsisn betur, eru skrefinu á undan á upphafsmínútunum og 4 stigum yfir eftir fyrsta leikhluta, 17-21. Í öðrum leikhlutanum láta þeir svo kné fylgja kviði. Komast mest 13 stigum framúr heimamönnum undir lok fyrri hálfleiksins, en þegar að liðin halda til búningsherbergja er staðan 41-50.

KR liðið heilt yfir nokkuð gott í þessa fyrstu tvo leikhluta, en það voru frammistöður danans Zarko Jukic, sem var góður varnarlega og skilaði 7 stigum og 3 fráköstum, Þórir Guðmundur Þorbjarnarson einnig flottur varnarlega og virkilega aggressívur sóknarlega með 12 stig, þá stýrði Matthías Orri Sigurðarson leik þeirra lengst af með miklu öryggi, setti einnig 10 stig. Í frekar daufu liði heimamanna var það Kristófer Acox sem sýndi mestu viðleitnina, 9 stig og 5 fráköst.

Með góðum kafla á upphafsmínútum seinni hálfleiksins ná heimamenn svo að jafna leikinn í stöðunni 53-53. Liðin skiptast svo á forystunni út leikhlutann, en fyrir þann fjórða er staðan jöfn, 63-63. Undir lok leiksins er leikurinn svo áfram jafn, en KR nær þó að vera hænuskrefi á undan. Lokasekúndur leiksins voru gífurlega spennandi, þar sem að ekki mátti mikið útaf bregða fyrir gestina, en þeir stóðust prófið og sigldu að lokum sterkum 86-89 sigri í höfn.

Kjarninn

Þessi leikur var nokkuð eftir bókinni miðað við aðra leiki í þessari seríu. Gífurlega jafn og spennandi. Undir lokin í þessum gátu KR-ingar treyst á Tyler Sabin sem sinn endakall á meðan að heimamenn tóku nokkrar rangar ákvarðanir sóknarlega sem kostuðu þá leikinn. Frammistaðan heilt yfir góð hjá KR liðinu í dag, þar sem að allir voru að leggja í púkkið. Tyler Sabin kannski sá augljósi, þar sem hann skoraði mest, en leikmenn eins og Matthías Orri, Þórir Guðmundur, Jakob Örn, Zarko, Brynjar Þór og fleiri gerðu allir virkilega vel.

Það er engin stór spurning hvort að KR hafi unnið þessa seríu eða Valur hafi tapað henni. KR einfaldlega vann hana. Sýndu á löngum köflum að sá bolti sem þeir spila, hlaupa mikið og skjóta vel, getur verið árangursríkur, þó það sé komið inn í úrslitakeppni. Áhugavert verður að sjá þetta spræka lið mæta deildarmeisturum Keflavíkur í næstu umferð.

Atkvæðamestir

Tyler Sabin var bestur í liði KR í dag, setti 26 stig, tók 5 fráköst og gaf 4 stoðsendingar. Fyrir heimamenn var það Kristófer Acox sem dró vagninn með 17 stigum og 13 fráköst.

Hvað svo?

Undanúrslitin rúlla af stað á mánudaginn með leik Þórs og Stjörnunnar, en degi seinna mun KR heimsækja deildarmeistara Keflavíkur í Blue höllina.

Tölfræði leiks