KR tók á móti ÍR í kvöld í seinustu umferð Dominosdeildar karla 2020-2021 í DHL-höllinni. ÍR átti möguleika á að lauma sér inn í úrslitakeppnina með sigri en KR gat tryggt sér heimavöllinn í fyrstu umferð úrslitakeppninnar með sigri.

Liðin spiluðu mikla sókn en aðeins minni vörn í leiknum en fleiri slæmir varnarkaflar hjá gestunum skilaði sér í sigri KR-inga, 112-101.

Fyrir upphaf leiks lá fyrir að Zvonko Buljan myndi ekki byrja inn á fyrir ÍR og Benóný Sigurðsson, ungur miðherji ÍR, fékk því að spreyta sig í þriðja sinn á tímabilinu í byrjunarliðsstöðu. Að öðru leyti var byrjunarliðið nokkuð eðlilegt og Colin Pryor snúinn aftur úr veikindum vegna bólusetningar.

Gangur leiksins

KR byrjaði sterkar og sýndu Vesturbæingar góða takta í boltaflæði eins og verið hafði fyrr á tímabilinu. Gestirnir úr Breiðholtinu áttu aðeins erfiðara með að skora en Everage Richardson hélt liðinu á floti fyrstu mínúturnar með nokkrum vel völdum þristum. ÍR hélt KR nærri sér með sterkum sóknum og gátu í seinni hluta fyrsta fjórðungsins jafnað stöðuna þannig að ÍR var aðeins einu stigi frá KR eftir fyrstu 10 mínúturnar. Staðan 27-26.

Í öðrum leikhlutanum hertu gestirnir bláklæddu sig og tóku forystuna með ágætri innkomu Zvonko Buljan, sem kom inn á eftir 8 mínútur spilaðar. ÍR náði mest sjö stiga forystu með fínni vörn og betri sókn en það fór aðeins að draga af þeim undir lok fyrri hálfleiksins. KR kom þá til baka og náðu á þremur mínútum að brúa bilið svo að liðin skildu jöfn í hálfleik, 50-50.

ÍR hefur yfirleitt átt góða þriðja leikhluta á yfirstöðnu tímabili en svo var ekki í þessum leik gegn KR. KR kom miklu sterkari inn í seinni hálfleikinn og náði á fyrstu fimm mínútunum að taka 8 stiga forystu. Fremstur meðal jafningja þar var Brynjar Þór Björnsson sem setti 4 þrista í fimm tilraunum í þriðja leikhluta. Staðan var 79-68 í loka þriðja fjórðungsins.

Áfram héldu gestirnir að reyna að koma sér aftur inn í leikinn í lokafjórðungnum en gott flæði í sóknarleik KR bægði hættunni frá fyrstu 5 mínúturnar. Darri Freyr, þjálfari KR, tók þá leikhlé sem skilaði sér í því að ÍR komu sterkir til baka og skoruðu 9 stig gegn 2 stigum heimamanna næstu tvær mínúturnar. Í stöðunni 99-95 virtist fjara undan ÍR-ingum og þeir fengu 8 stig í röð á sig áður en þeir gátu svarað. Þar með var leikurinn úti og KR vann örugglega 112-101.

Lykillinn

Liðsbolti KR var mjög drjúgur, en Ty Sabin og Brandon Nazione leiddu liðið til sigurs með mjög góðum frammistöðum. Ty skoraði 33 stig, gaf 5 stoðsendingar og setti 57% skota sinna í leiknum. Brandon, sem byrjaði tímabilið ekki vel en hefur verið að spila betur og betur, átti flottan leik með 26 stig, 9 fráköst, 5 stoðsendingar og 6 sóttar villur.

Hjá ÍR átti Everage Richardson geggjaðan leik með 33 stig, 5 stoðsendingar og 7 af 11 þristum niður.

Tölfræðin lýgur ekki

Stoðsendingarnar segja alla söguna í þessum leik. KR gefur 35 stoðsendingar í leiknum gegn 22 hjá ÍR. Boltaflæðið var betra hjá Vesturbæjarliðinu og það skilaði sér m.a. í fleiri þristum niður, en KR hitti úr 20 þristum í leiknum, flestir opnir eftir gott boltaflæði. Þeir hittu líka mjög vel út tveggja stiga skotunum sínum (21/28, 75% nýting) sem gefur aftur til kynna gott spil sem leiðir til góðra skota.

Kjarninn

KR-ingar hafa þá tryggt sér 4. sætið í deildarkeppninni og eiga því heimavallarréttinn á móti Valsmönnum, sem náðu 5. sætinu með sigri á Grindavík. KR á í vændum flotta séríu gegn Val ef þeir geta bætt vörnina sína aðeins en haldið áfram að spila svona góða og flæðandi sókn.

ÍR fellur ekki en mun ekki heldur taka þátt í úrslitakeppninni á þessum tímabili. Þeir hafa átt mjög slakt tímabil, m.a. vegna þess hvað Covid-stoppið virðist hafa leikið þá grátt. Eftir 100 daga pásuna náðu ÍR-ingar sér aldrei á strik og Zvonko Buljan, sem var bætt í hópinn um það leyti, virðist ekki hafa breytt miklu þar. Hann er ekki ýkja mikill varnarmaður og þegar miðherji manns nennir ekki að spila vörn þá verður reikningsdæmið erfitt. Breiðhyltingar eru þá komnir í sumarfrí en geta huggað sig við að það fór ekki allt á versta veg og þeir eru enn í deild hinna bestu á næsta ári.

Tölfræði leiksins

Myndasafn: Bára Dröfn

Viðtöl eftir leikinn