Tindastóll tók á móti ÍR-ingum í öðrum leik liðanna í úrslitakeppni 1. deildar kvenna í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld. Breiðhyltingar höfðu unnið fyrsta leikinn 80-66 og gátu því tryggt sig áfram með sigri og sent Stóla um leið í sumarfrí.

Frá byrjun var ljóst að heimastúlkur ætluðu að selja sig dýrt, voru mjög lifandi og baráttuglaðar í vörninni. Sóknarleikurinn lét hinsvegar á sér standa og það voru gestirnir sem náðu forystu snemma og leiddu 8-15 eftir fyrsta leikhluta. Baráttan hélt áfram í öðrum leikhluta og Tindastóll náði að minnka muninn í 4 stig en þá kom góður kafli gestanna sem komust í 20-36 og litu ekki til baka eftir það. Það bætti svo ekki úr skák fyrir heimastúlkur að Eva meiddist á ökkla við lok hálfleiksins og tók ekki frekari þátt í leiknum.

Sóknarleikur Stólastúlkna hélt áfram að ganga illa í seinni hálfleik og gestirnir juku við forskotið, leiddu 32-56 eftir þriðja leikhluta og ekki að sjá að Stólar ætti svör. Sama mynstur hélt áfram í 4. leikhluta og fór það svo að lokum að Tindastóll náði einungis að gera 7 stig í lokaleikhlutanum og leikurinn endaði 39-68 fyrir gestina.

Hjá ÍR dreifðist stigaskorið frekar jafnt á leikmenn og náðu allar að koma stigi á töfluna. Fanndís María setti 15 stig og reif niður 7 fráköst. Hjá Tindastól var Marín stigahæst með 15 stig en heilt yfir var leikurinn liðinu mjög erfiður þó ekki vantaði viljann. Tindastólsstúlkur geta litið stoltar yfir tímabilið sem þær fóru í gegnum án erlends leikmanns en nú er komið sumarfrí. ÍR-ingar halda áfram keppni og gætu náð langt enda miklir hæfileikar í hópnum.

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

Umfjöllun, myndir / Hjalti Árna