Njarðvíkingar eru í þjálfaraleit eftir að samningi Einars Árna Jóhannssonar lauk á dögunum og ljóst var að samningurinn yrði ekki endurnýjaður. Einar hefur stýrt liðinu síðustu þrjú tímabil en liðið var í fallbaráttu allt til síðustu umferðar á þessu tímabili. Liðið bjargaði sér frá fallinu með frábærum endasprett er liðið vann þrjá af síðustu fjórum leikjum.

Leikmannahópur liðsins hefur verið skipaður svo gott sem sama kjarna síðustu ár og því gæti verið komin tími á uppstokkun og nýtt blóð inn. Njarðvík sem hefur leikið í efstu deild í 50 ár í röð auk þess að hafa unnið ellefu Íslandsmeistaratitla er stórveldi í körfuboltanum og ætti starfið þar því að vera nokkuð eftirsótt.

Karfan.is tók saman nokkra mislíklega þjálfarakosti fyrir Njarðvík til gamans.

Listann má sjá hér að neðan:

Borce Ilievski

Eftir að hafa gert gjörsamlega frábæra hluti hjá ÍR liðinu hafa síðustu tvö tímabil verið nokkur vonbrigði og því einhverjir sem spá því að tíma hans í Breiðholtinu gæti verið lokið. Hefur sýnt styrk sinn sem þjálfari síðustu ár og gæti verið frábær kostur fyrir Njarðvíkinga.

Máté Dalmay

Allt frá Gnúpverja ævintýrinu hefur Máté vakið athygli. Hefur síðustu ár stýrt liði Hamars og verið hársbreidd frá því að stýra þeim uppí Dominos deildina. Gæti komið með nýtt blóð og hugmyndir til Njarðvíkur sem þurfa að fara í ákveðna enduruppbyggingu.

Ingi Þór Steinþórsson

Ingi kann að búa til lið og sækja titla. Hefur góða reynslu af því að stýra liði af landsbyggðinni og veit hvað þarf til. Hefur verið aðstoðarþjálfari Stjörnunnar og líklegt að hann sé til í aðalþjálfarastarf ef það byðist.

Rúnar Ingi Erlingsson

Gert flotta hluti með kvennalið Njarðvíkur sem spilar skemmtilegan og áhrifaríkan körfubolta. Lið Njarðvíkur varð deildarmeistari í 1. deild kvenna og liðið líklegt til að vinna sér sæti í efstu deild. það er því kannski ekki líklegt að Rúnar vilji yfirgefa það verkefni ef það tækist, hvað þá að stökkva frá Endalínunni.

Israel Martin

Þrátt fyrir að verkefnið hjá Haukum hafi ekki gengið sem skildi ætti engin að vanmeta hæfileika Martins sem þjálfara. Virkilega hæfur þjálfari sem þekkir deildina vel og hefur gert vel áður. Gæti nýst Njarðvíkingum við þær breytingar sem framundan eru.

Sverrir Þór Sverrisson

Málarinn hefur ekki stýrt liði í tvö ár en allir vita hversu öflugur þjálfari hann er. Stýrði kvennaliði Njarðvíkur til Íslandsmeistaratitils 2012, þjálfar yngri flokka þar og þekkir vel til liðsins enda sonur hans, Jón Arnór Sverrisson leikmaður Njarðvíkur. Unnið íslandsmeistaratitil með Grindavík, Keflavík og gæti nú lokað hringnum.

Teitur Örlygsson

Ekki stýrt liði sem aðalþjálfari síðan 2014 en var ásamt Friðriki Inga árin 2015 og 2016. Eftir frekar döpur ár hjá Njarðvík gæti verið að liðið þurfi einhvern með Njarðvíkur hjarta sem getur komið liðinu á réttan kjöl. Teitur þekkir allt út og inn og hefur gert flotta hluti í þjálfun.

Benedikt Guðmundsson

Benni hefur verið í árspásu frá meistaraflokksþjálfun eftir að hann steig til hliðar hjá KR fyrir ári. Hefur stýrt Þór Ak, Þór Þ, KR og Fjölni í efstu deild karla og hefur þar oftar en ekki þurft að byggja upp sitt lið. Alltaf náð árangri með lið sín og gæti reynsla hans verið það sem Njarðvík vantar.

Logi Gunnarsson

Þrátt fyrir að Logi hafi gefið það út að hann vilji spila áfram gæti þetta verið kjörið tækifæri fyrir hann að færa sig yfir í þjálfun. Fáir eða engin þekkir Ljónagryfjuna jafn vel, þekkir leikmennina og veit hvað þarf til til að ná árangri.

Pedro Garcia Rosado

Gerði algjörlega frábæra hluti með lið Sindra í vetur á sínu fyrsta tímabili. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hann komið víða við, þjálfað á Spáni og Englandi auk þess að hafa menntað sig vel. Virðist vera virkilega fær þjálfari sem Njarðvík gæti reynt að stela í sumar.