Það var sannkallaður nágrannaslagur í gær þegar Hamar og Selfoss mættust í orustunni um Ingólfsfjall. Mikill kraftur og leikgleði einkenndi leik Hamarsmanna á fyrstu mínútum leiksins og náðu þeir fljótt góðri forustu. Ragnar Magni Sigurjónsson leiddi leik heimamanna í upphafi með góðum þriggja stiga körfum og troðslu. Náðu Hamarsmenn mest 17 stiga forustu í stöðunni 24-7, en þá náðu Selfyssingar góðu áhlaupi og minnkuðu muninn í 9 stig þegar leikhlutanum lauk, 31-22.

Í öðrum leikhluta jókst forusta Hamars jafnt og þétt, en þar átti Eyþór Lár Bárðarson mjög góða innkomu með 4 stig og 4 fráköst á skömmum tíma. Hamar var að hitta vil úr sínum skotum á meðan illa gekk hjá Selfyssingum að koma boltanum ofan í körfuna. Staðan í hálfleik var 56-37 og virtist fátt benda til annars en frekar þægilegan sigur heimamanna.

Selfyssingar eru þó ekki þekktir fyrir að gefast upp og komu þeir tvíefldir til leiks í síðari hálfleik. Skiptu þeir yfir í svæðisvörn og höfðu Hamarsmenn fá svör við góðum leik Selfyssinga. Hjá þeim fóru þar fremstir í flokki Sveinn Búi Birgisson, Arnór Bjarki Eyþórsson og Kristijan Vlacovic, en þeir skiptust á að raða niður körfum allsstaðar af vellinum. Var staðan við lok leikhlutans 71-65 og munurinn kominn niður í 6 stig. 

Kristijan Vlacovic opnaði 4. leikhlutann með þriggja stiga körfu og var auðséð að Selfyssingar ætluðu sér halda áfram frá því sem var horfið úr 3. leikhluta. Á skömmum tíma bætti Arnór Bjarki svo við 5 stigum og voru Selfyssingar skyndilega komnir í forustu, 73-75, við mikinn fögnuð stuðningsmanna þeirra í stúkunni. Hamarsmenn virkuðu ráðalausir gegn öflugri svæðisvörn Selfyssinga og náðu Selfyssingar að auka forskot sitt í 7 stig í stöðunni 73-80 þegar um 6 mínútur voru eftir af leiknum. Vöknuðu þá Hamarsmenn loks upp og skoruðu Jose Medina og Rangar Magni tvær þriggja stiga körfur með skömmu millibili og kveiktu þar í heimamönnum. Á sama tíma virtist bensínið klárast hjá Selfyssingum. Á síðustu mínútum leiksins skoruðu Hamarsmenn 24 stig gegn 9 stigum Selfyssinga og lauk leiknum með 8 stiga sigri Hamars, 97-89.

Næst á dagskrá hjá liðunum er úrslitakeppni þar sem Hamar mun mæta Hrunamönnum og Selfoss mætir Sindra.

Tölfræði leiks

Umfjöllun, myndir / Reynir Þór Garðarson