Grindavík lagði Stjörnuna í kvöld í fjórða leik átta liða úrslita einvígis liðanna í Dominos deild karla, 95-92.

Fyrir leik

Stjarnan var með yfirhöndina í einvíginu fyrir leik kvöldsins, 2-1. Liðin höfðu fyrir leik kvöldsins unnið sína heimaleiki, Stjarnan báða í MGH og Grindavík þennan eina í HS Orku Höllinni.

Gangur leiks

Það voru gestirnir úr Garðabæ sem byrjuðu leik kvöldsins betur. Ná mest 9 stiga forystu í fyrsta leikhlutanum, en heimamenn gera vel og eru snöggir að jafna leikinn aftur. Staðan 22-22 eftir fyrsta. Undir lok fyrri hálfleiksins skiptast liðin á snöggum áhlaupum og þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik eru heimamenn tveimur stigum yfir, 43-41.

Mikið jafnræði var á með liðunum í þessum fyrri hálfleik. Liðin skiptust á forystunni í heil átta skipti. Stjarnan leiddi lengur en heimamenn, tæpar 10 mínútur á móti rúmlega 6 mínútum hjá Grindavík. Mikið mæddi á Austin Brodeur og Ægi Þór sóknarlega fyrir gestina í fyrri hálfleiknum, á meðan að framlagið var öllu dreifðara hjá heimamönnum.

Í upphafi seinni hálfleiksins komast heimamenn á gott flug. Ná í þriðja leikhlutanum að byggja upp sína mestu forystu til þessa í leiknum, staðan 72-65 fyrir lokaleikhlutann. Á fyrstu mínútum fjórða leikhlutans setur Þorleifur Ólafsson þrist og kemur forskoti heimamanna í 10 stig, beint á eftir fær hann svo sína aðra óíþróttamannslegu villu í leiknum og þarf því að yfirgefa húsið. Grindvíkingar halda forystunni fram á lokamínúturnar, gestirnir gera þá nokkuð gott áhlaup og koma muninum minnst niður í 1 stig. Nær komast þeir þó ekki og Grindavík sigra að lokum með 3 stigum, 95-92.

Hitinn

Mikill hiti virtist vera í leikmönnum og þjálfarateymum beggja liða í kvöld. Að sjálfsögðu skiljanlegt með tilliti til mikilvægi leiksins. Heldur verra var þó að stuðningsmenn virtust ekki geta setið á sér, en til ryskinga kom á milli stuðningsmanna liðanna í leiknum, þar sem að einhverjum var gert að yfirgefa húsið. Að sjálfsögðu ekki gott í eðlilegu árferði, en sérstaklega vont þegar aðeins 225 miðar eru seldir í húsið

Atkvæðamestir

Joonas Jarvelainen var bestur í liði heimamenna í dag með 19 stig og 11 fráköst. Fyrir gestina úr Garðabæ var Ægir Þór Steinarsson atkvæðamestur með 34 stig og 13 stoðsendingar.

Hvað svo?

Liðin mætast í oddaleik um sæti í undanúrslitum komandi föstudag 28. maí í MGH í Garðabæ.

Tölfræði leiks