Grindvíkingar lagðir í fyrsta leik átta liða úrslitanna

Stjarnan vann öruggan og sanngjarnan sigur á Grindvikingum, 90-72, í fyrsta leik úrslitakeppninnar þetta árið. Stórsigur heimamanna gefur samt ekki alveg rétta mynd af leiknum, þótt Stjarnan hafi verið með frumkvæðið frá byrjun.

Framan af leik voru Stjörnumenn skrefinu, eða hálfu skrefi, á undan Grindvíkingum, sem þurftu í raun að elta heimamenn lungann úr leiknum, og slíkt tekur toll. Bæði lið áttu góðar rispur og leikurinn var stundum dálítið villtur. Stjarnan leiddi með sjö stigum í hálfleik.

Í síðari hálfleik hélt Stjarnan frumkvæðinu þótt ekki væri munurinn mikill. En í lokaleikhlutanum lét Stjarnan sverfa til stáls – spilaði góða og grimma vörn sem sló Grindvíkinga útaf laginu, og þeir misstu heimamenn of langt frá sér. Að lokum var það því Stjarnan sem tók fyrsta leikinn með sanngjörnum hætti og gaman verður að sjá hvernig Grindvíkingar bregðast við þessum ósigri.

Ægir Þór Steinarsson fór fyrir liði Stjörnunnar, en hann er alger lykilmaður í liðinu. Annars var það góð liðsheild með kraftmikilli vörn í síðari hálfleik sem skóp sigur Stjörnunnar og liðið sem heild fær stjörnu í kladdann.

Grindvíkingar sýndu góða spretti í þessum leik, en hefðu þurft að vera tilbúnari frá byrjun; það er erfitt að elta lið sem Ægir Þór Steinarsson stýrir. Ólafur Ólafsson, Dagur Kár, Kaz Abif og Björgvin Hafþór Ríkharðsson áttu allir ágætan leik, og Björgvin fær hrós fyrir að halda alltaf áfram að berjast hvað sem á dynur. Liðið þarf að gíra sig upp fyrir næsta leik og það vita leikmenn og þjálfarar þess mætavel. Hinn stórefnilegi Bragi Guðmundsson fékk ekki tækifæri fyrr en í svokölluðum rusltíma, en það er spurning hvort pilturinn hefði ekki mátt koma miklu fyrr inná, en hann sýndi það seinnipart vetrar og fyrri parts vor að hann er tilbúinn í slaginn.

Tölfræði leiks