Grindavík lagði KR í kvöld í 20. umferð Dominos deildar karla, 83-85. Eftir leikinn eru liðin jöfn að stigum með 20, en vegna innbyrðisstöðu er KR í 4. sætinu á meðan að Grindavík eru sæti neðar.

Fyrir leik

Í lið Grindavíkur vantaði bakverðina Dag Kár Jónsson og Marshall Nelson, en báðir eru frá vegna meiðsla. Það munar um minna fyrir Grindavíkurliðið, Dagur Kár að skila 18 stigum og 6 stoðsendingum að meðaltali í leik í vetur og Marshall 17 stigum og 6 stoðsendingum.

Gangur leiks

Gestirnir úr Grindavík mættu miklu tilbúnari til leiks í kvöld en heimamenn. Leiddu með 9 stigum eftir fyrsta leikhluta, 11-20, en þeir settu 4 af 7 þriggja stiga skotum sinna niður í fjórðungnum. Í öðrum leikhlutanum halda Grindvíkingar fætinum svo áfram á bensíngjöfinni og koma muninum mest í 15 stig. Heimamenn gera þó vel í að missa þá ekki enn lengra frá sér, líklegast til sátti með að vera aðeins 10 stigum undir þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 32-42.

Í upphafi seinni hálfleiksins vinna heimamenn mun gestanna hægt og bítandi niður, koma því mest niður í 4 stig um miðjan leikhlutann. Með góðum lokamínútum í þriðja leikhlutanum ná Grindvíkingar forystu sinni aftur og eru 11 stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 52-63. Í honum gerðu heimamenn vel í að vinna muninn alveg niður og komast í fyrsta skipti yfir þegar tæpar 3 mínútur voru eftir af leiknum. Undir lokin virtust þeir svo vera að taka leikinn, en þegar 2.5 sekúndur voru eftir, í stöðunni 83-82, stelur Ólafur Ólafsson, leikmaður Grindavíkur, boltanum, brunar upp völlinn og setur niður flautuþrist frá miðju. Lokatölur, 83-85.

Kjarninn

Tapið er það fimmta hjá KR í röð í deildinni. Alveg gefið að tveir þessara tapleikja komu á flautukörfu hjá andstæðing og þeir voru nokkuð góðir gegn besta liði deildarinnar (þrátt fyrir tap) í síðustu umferð. Hlýtur að vera áhyggjuefni að úrslitakeppnin er handan við hornið og ekki gengur betur hjá þeim að vinna leiki en þetta þrátt fyrir að vera með hinn fínasta mannskap. Hið andstæða er hægt að segja um Grindavík. Virðast verða betri með hverjum lykilmanninum sem þeir missa út. Eftir að hafa klárað leik sinn í síðustu umferð gegn ÍR á ævintýralegan hátt, toppa þeir það í kvöld með enn ævintýralegri sigri. Það skal þó alveg sagt, að þó þeir hafi næstum verið búnir að missa leik kvöldsins í lokin, þá leiddu þeir hann í rúmar 37 mínútur. Liðið frákastar virkilega vel, spila ágætis vörn og sóknarleikur þeirra er vel ásættanlegur. Það er aldrei að vita hvað þeir gera (sama hvaða liði þeir stilla upp) þegar komið verður í úrslitakeppnina.

Tölfræðin lýgur ekki

KR voru agalegir af glerinu í kvöld, tóku aðeins 28 fráköst í leiknum á móti 50 fráköstum Grindvíkinga. Munurinn á sóknarfráköstum, 4 hjá KR, 25 hjá Grindavík.

Atkvæðamestir

Tyler Sabin var stórkostlegur undir lokin fyrir KR, í heildina skilaði hann 31 stigi og 3 fráköstum í leiknum. Fyrir Grindavík var það Björgvin Hafþór Ríkharðsson sem dró vagninn með 15 stigum og 10 fráköstum.

Hvað svo?

Bæði lið leika næst komandi fimmtudag 6. maí. Grindvíkingar fá Tindastól í heimsókn í HS Orku Höllina á meðan að KR heimsækir Stjörnuna í MGH.

Tölfræði leiks