Valur lagði Hauka í kvöld í lokaleik 20. umferðar Dominos deildar karla, 87-79. Valur er eftir leikinn í 4. sæti deildarinnar með 22 stig á meðan að Haukar eru í 12 sætinu með 12 stig.

Hérna er meira um leikinn

Karfan spjallaði við Finn Frey Stefánsson, þjálfara Vals, eftir leik í Origo Höllinni.

Tvö góð stig og einir í fjórða sæti…eitt af fáum liðum sem fær að vera eitt í sæti…!

Jájá!

…en þú ert nú kannski ekkert alls kostar ánægður með leik þinna manna samt?

Við getum töluvert betur, en það voru ákveðnir þættir í okkar leik sem við gerðum vel, það voru ákveðnir hlutir varnarleika sem mér fannst við bæta okkur í, en vissulega aðrir hlutir sem voru ekki nógu góðir. En mér fannst gott hjá okkur að grænda þetta út, það var engin stórskotasýning hjá okkur sóknarlega og flæðið var ekki mikið en það er þá gott að geta unnið þannig leiki á vörninni.

Það er rétt, Sinisa var flottur og Roland, sérstaklega undir lokin. En annars var frekar lítið að frétta sóknarlega…?

Jájá, en það er bara eins og það spilast með þetta blessaða lið okkar, við þurfum að geta verið fjölbreyttir, Jordan hefur átt frábæra fyrri hálfleika og frábæra seinni hálfleika, Sinisa hefur átt leiki og stundum stígur Jón upp og stundum Kristó. Það er eiginlega það sem við þurfum að gera, ef lið ætla að taka eitthvað eitt frá okkur þá þarf eitthvað annað að opnast og við þurfum að hafa styrk í því. Jordan var tekin úr umferð í síðasta leik en við skorum samt tæp 50 stig í seinni hálfleiknum…það eru alls kyns leiðir til að dekka okkur en við þurfum að finna leiðir til að geta ráðist á allt. Í dag var Sinisa með gott matchup og Jordan í seinni og við sóttum bara á það.

Jájá akkúrat. Og það er nú oft talað um að í úrslitakeppninni verður varnarleikurinn kannski ennþá mikilvægari en í deildarleik í október eða eitthvað…Valsmenn geta kannski horft svolítið á það…

Jájá við vorum að rembast við að ná að læsa vel…það var stundum smá einbeitingarleysi og við náðum ekki að klára varnirnar alveg. En við höfum oft verið svo slakir varnarlega að við höfum fengið á okkur körfur eftir 10-14 sekúndur svo við kunnum kannski ekki alveg að spila vörnina í 24 sekúndur! En mér fannst við gera margt vel í dag, það var minna af auðveldum snöggum körfum og mér fannst við ná að binda vel saman en samt fullt af körfum sem mér finnst við gætum komið í veg fyrir bara með aðeins meiri einbeitingu og efforti.

Vissulega. Nú fannst mér stemmningin ekki mikil í þessum leik…það var ekki uppselt á leikinn, þetta er náttúrulega alveg fáránlegt! Það mega 100 manns vera í húsinu og það er ekki uppselt…fer þetta ekkert í taugarnar á þér?

Já…nei ekki neitt! Ef ég þarf að vera að spá í áhorfendum þá væri ég ekki að sinna vinnunni minni. En auðvitað væri gaman að hafa fleiri í húsinu…en við erum á covid-tímum og fólk heldur kannski að það sé uppselt en það má minna fólk á það að það er til app og þar sést hvort miðar séu lausir eða ekki! En ég veit sem er að þegar í úrslitakeppnina kemur þá mun fólk styðja okkur. Svo gleymist í umræðunni að leikjaálagið er líka á áhangendur, ekki bara leikmenn! Það verða 6 meistaraflokkar í gangi hjá Val næstu 2 mánuði.

Jájá, og vonandi lagast þetta hjá Völsurunum, það stefnir í að þið náið fjórða sætinu og þá eruði með heimaleikjarétt í fyrstu og það væri vandræðalegt að vera með 80 manns í húsinu í úrslitakeppninni…?

Ég hef enga trú á því…vonandi verða svo aðstæður í þjóðfélaginu þannig að fleiri áhorfendur verði leyfðir. En maður upplifar bara svolítið andlega þreytu í öllu, maður finnur það í öllu, þetta er búið að vera langt og erfitt tímabil og búið að taka mikið á og menn farnir að bíða svolítið eftir úrslitakeppninni…

Sagði Finnur og undirritaður ásamt mörgum öðrum eru líka að bíða!!