Breiðablik lagði Skallagrím í kvöld í 20. umferð Dominos deildar kvenna, 82-72. Eftir leikinn eru liðin jöfn að stigum með 16, en vegna innbyrðisstöðu færast Blikar upp í fimmta sætið á meðan að Skallagrímur fellur niður í það sjötta.

Gangur leiks

Heimakonur í Blikum voru skrefinu á undan í upphafi leiks, leiða þó aðeins með 3 stigum þegar að fyrsti leikhlutinn er á enda, 18-15. Undir lok fyrri hálfleiksins er leikurinn svo áfram nokkuð jafn, staðan 36-37 þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik.

Í upphafi seinni hálfleiksins eru heimakonur svo aftur aðeins á undan. Munurinn þó ekki mikill eftir þrjá leikhluta, fjögurra stiga Blikaforysta, 56-52. Undir lokin náði Breiðablik svo að byggja aðeins á þessa forystu og vann leikinn að lokum með 10 stigum, 82-72.

Kjarninn

Bæði lið hafa væntanlega mætt nokkuð pressulaus til leiks í kvöld. Staða þeirra í deildinni ekki mikið að fara að breytast í þessum síðustu tveimur umferðum, þar sem hvorugt þeirra gat fallið og hvorugt komist í úrslitakeppnissæti. Baráttan þó sú að með góðum úrslitum í þessum síðustu tveimur umferðum gæti annað komist upp fyrir hitt og endað í fimmta sætinu, en ekki því sjötta. Mögulega hægt að sjá það í gegnum fingur sér að hvorugt lið hafi náð markmiðum sínum þennan veturinn og kannski er einhver sárabót í því að enda allavegana einu sæti ofar.

Tölfræðin lýgur ekki

Ekki munaði miklu á tölfræðiþáttum liðanna í dag, nema kannski ef litið er til skotnýtingu. Breiðablik skaut boltanum nokkuð betur en Skallagrímur, voru með 43% skotnýtingu á móti aðeins 31% skotnýtingu gestanna.

Atkvæðamestar

Jessica Kay Loera var atkvæðamest í liði Breiðabliks í dag með 27 stig, 7 fráköst og 6 stoðsendingar. Fyrir gestina úr Borgarnesi var það Keira Robinson sem dró vagninn með 20 stigum, 11 fráköstum og 6 stoðsendingum.

Hvað svo?

Lokaumferð deildarkeppninnar fer fram komandi laugardag 8. maí, þar fær Skallagrímur nýliða Fjölnis í heimsókn á meðan að Breiðablik mætir Snæfell í Stykkishólmi.

Tölfræði leiks