Það eru allir að skíta á sig yfir Valur-KR-einvíginu í átta liða úrslitum úrvalsdeildar karla í körfuknattleik. Sú saga hefur gengið fjöllum hærra að einhver möguleg tengsl megi finna á milli þessara liða…svona fyrirfram. Undiritaður veit ekkert meira um það en einvígi þessara liða er, algerlega burtséð frá sögusögnum, afskaplega spennandi! 0-1 er jú staðan og allir ætla að horfa á leik 2.

Spádómskúlan: KR-Valur, leikur tvö, hvað segiru um það?

,,Líttu upp til himna!“ segir Kúlan. ,,Þetta er skrifað í skýin, Valur jafnar einvígið örugglega, 80-94“.

Byrjunarlið:

KR: Matti, Brilli, Sabin, Zarko, Kobbi

Valur: Pavel, Hjálmar, Jordan, Cardoso, Kristó

Gangur leiksins

Heimamenn byrjuðu leikinn af miklum krafti og óhætt að segja að nýstofnuð stuðningsmannasveit Valsmanna gáfu sínum mönnum ekki jafn mikla orku og Miðjan. Það var gersamlega allt ofan í hjá KR-ingum og leiddu þeir 17-13 um miðjan leikhlutann og voru 15 stiganna úr þristum í 7 skotum! Valsarar fylgdu í humátt á eftir heimamönnum en kusu allmikið styttri skotfæri í stigasöfnun sinni. Það gekk alveg prýðilega hjá gestunum og var Hjálmar afar áberandi í baráttunni undir körfu KR-inga. Staðan var 31-28 eftir fyrsta leikhluta og ljóst að sóknarleikurinn var að bera varnarleikinn ofurliði beggja vegna vallar.

Það vakti athygli að Kristó dekkaði Matta í upphafi annars leikhluta á meðan Hjálmar eða Jón voru settir Sabin til höfuðs. Skemmtileg pæling en það virtist ekki hafa mikil áhrif á hittni heimamanna sem héldu áfram að raða þristum. Áfram svöruðu Valsmenn með sínum styrkleikum, skoruðu mikið undir körfunni og hirtu sóknarfráköst í bunkum. Heimamenn leiddu leikinn rétt framyfir miðjan leikhlutann en þá kom Bilic sínum mönnum yfir í 37-38. Það var jafnt á öllum tölum fram til hálfleiks, staðan 46-48 Valsmönnum í vil. Nazione og Sabin voru með 11 stig í hálfleik og hálft liðið með a.m.k. einn þrist, Cardoso var atkvæðamestur Valsmanna með 10 stig og Hjálmar með 10 sóknarfráköst!

Sabin er alveg eins og Derek Fisher, hittir alltaf! Það hlýtur að vera gersamlega óþolandi fyrir andstæðingana og hann kom KR yfir 51-50 snemma í þriðja leikhluta. En þá náðu gestirnir góðum tökum á leiknum. Vörnin hertist, hafði reyndar batnað mikið strax í öðrum leikhluta, en skotnýting heimamanna tók einnig að dala og þó fyrr hefði verið! Valsliðið þvældist einhvern veginn framúr KR-ingum eins og hæggengur skriðdreki í þessum leikhluta, stig fyrir stig. Jón kom sínum mönnum í 58-65 sem mætti kalla forystu og KR tók leikhlé. Leikhléið skilaði sennilega ekki miklu því drekinn skreið áfram í sömu átt og leiddi 62-72 fyrir lokaátökin. Kúlan og Finnur Freyr rífandi sátt með stöðuna, Darri síður.

Finni leist ekki á blikuna í byrjun fjórða og tók leikhlé strax eftir eina mínútu og eina sekúndu! Þá voru aðeins þrjú stig komin í leikhlutanum sem var þristur frá Helga Magg. Leikhléið virtist ekki hafa komið alveg í veg fyrir það sem gerðist í framhaldinu því KR-ingar voru búnir að jafna í 74-74 rétt fyrir miðjan leikhlutann! Þar á undan setti Bjargvætturinn Bjössi einn gullfallegan og langan. Hinir miklu meistarar Jón og Pavel svöruðu með fimm stigum og áfram leiddu gestirnir. Sóknin stirðnaði allnokkuð hjá gestunum í þessum leikhluta og það má minna enn og aftur á þá staðreynd að körfubolti er skemmtileg íþrótt og það þýðir lítið að tefja og pakka í vörn! Nú þurfti að miða skriðdrekann við staur til að greina hreyfingu en þegar 35 sekúndur voru eftir setti Pavel frekar undarlegt tveggja stiga skot spjaldið ofaní og kom Val í 80-85. Gestirnir vildu allt fyrir áhorfendur gera og gerðu nokkrar tilraunir til að klúðra þessu líkt og í fyrsta leiknum. Aftur tapaði Jordan boltanum á ögurstundu en 35 sekúndur dugðu ekki til, skot yfir allan völlinn frá Tóta Túrbó í blálokin small í hringnum en lokatölur urðu 84-85 Val í vil í geggjuðum körfuboltaleik!

Menn leiksins

Cardoso, Hjálmar, Bilic og Kristó áttu allir mjög flottan leik fyrir gestina. Kristó og Hjálmar tóku báðir 14 fráköst, Cardoso skoraði mest eða 18 stig og Bilic átti einn sinn besta leik með liðinu en hann setti 16 stig og tók 8 fráköst.

Hjá KR var Sabin langatkvæðamestur, skoraði 23 stig, gaf 8 stoðsendingar og hirti 4 fráköst. Auðvitað klikkaði hann á einhverjum skotum en þau voru ekki mörg.

Kjarninn

Hvað getur maður sagt? Hvar á maður að byrja? Bæði lið eru frábær og skemmtilega ólík, KR með allar sínar skyttur, Valur með styrk og hæð. Staðan er augljós, nákvæmlega ekkert skilur liðin að eins og er. Í næsta leik hljóta KR-ingar að vilja frákasta betur en Valsmenn að hitta betur! Það verður mjög gaman að sjá hvernig það fer, og allt hitt, í leik þrjú!

Athygliverðir punktar:

  • Það var frábær stemmning í húsinu og einhvern veginn tókst KR-ingum að nánast fylla kofann af fólki, væntanlega þó í fullu samræmi við sóttvarnarreglur.
  • Miðjan söng sína hefðbundnu söngva en einnig heyrðist ,,Þið eruð handboltaklúbbur“, ,,Þið eigið enga stuðningsmenn“ og ,,Þið eruð fasteignasalar“!
  • Skemmtilegt og innan marka en nokkrir svartir sauðir eiga að skammast sín fyrir að gera hróp að einstaklingum eftir leik. Formaður KR fær risastórt rokkprik fyrir að verja gestina og reka pésana úr salnum.
  • Vissulega eru einhverjir KR-ingar sárir og allt það – en undirritaður leggur til að allir hinir hætti að velta þessu fyrir sér og njóti bara leikjanna, þvílík sería sem þetta hefur verið og verður vonandi áfram!
  • Valsmenn mættu allnokkrir enda hafa þeir stofnað stuðningsmannasveit! Hún á kannski svolítið í land en við fylgjumst grannt með í næsta leik!

Tölfræði leiks

Myndasafn (Bára Dröfn)