Valur lagði Þór Akureyri í kvöld í 18. umferð Dominos deildar karla 99-68. Eftir leikinn er Valur í 4.-5. sæti deildarinnar með 20 stig líkt og Valur á meðan að Þór Akureyri eru í 7.-8. sætinu með 16 stig líkt og Grindavík.
Gangur leiks
Þórsarar komu sprækir til leiks og eru skrefinu á undan eftir fyrsta leikhluta, 23-29. Heimamenn í Val ná þá flottu 15-0 áhlaupi strax í byrjun annars leikhlutans, en þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik er staðan 46-40.
Valsarar byrja seinni hálfleikinn svo af krafti. Fara langleiðina með leikinn með öruggum 25-14 þriðja leikhluta og eru 17 stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 71-54. Í honum gera þeir svo nóg til að sigla að lokum nokkuð öruggum 31 stigs sigri í höfn, 99-68.
Kjarninn
Eftir sögulega sigurgöngu virðast Þórsarar aldeilis hafa verið dregnir aftur niður á jörðina í síðustu tveimur leikjum, risastórt tap í Skagafirðinum og erfiður leikur í kvöld í Origo Höllinni. Eðlilegt kannski, við tekur barátta hjá þeim um sæti í úrslitakeppninni sem verður án vafa skemmtileg. Valsarar aftur á móti hafa heldur betur náð vopnum sínum. Eru sem stendur í 4. sætinu, með heimavöll í fyrstu umferð úrslitakeppni og eru ásamt Keflavík, einu liðin sem hafa unnið fimm síðustu leiki sína í deildinni eða meira.
Tölfræðin lýgur ekki
Valur gaf 28 stoðsendingar í leiknum á móti aðeins 13 hjá Þór Akureyri.
Atkvæðamestir
Kristófer Acox var bestur í liði Vals í dag, á 30 mínútum spiluðum skilaði hann 15 stigum og 14 fráköstum. Fyrir Þór var það Dedrick Basile sem dró vagninn með 24 stigum, 7 fráköstum og 7 stoðsendingum.
Hvað svo?
Bæði lið leika næst 29. apríl. Valur heimsækir Þór í Þorlákshöfn og Þór Akureyri fá Hött í heimsókn.
Myndasafn (Guðlaugur Ottesen)