Valur lagði Nýliða Fjölnis í kvöld í lokaleik 17. umferðar Dominos deildar kvenna, 64-74. Eftir leikinn er Valur í efsta sæti deildarinnar með 28 stig á meðan að Fjölnir er í 4. sætinu með 22 stig.

Gangur leiks

Leikur kvöldsins var nokkuð jafn í byrjun. Eftir fyrsta leikhluta leiddu Valskonur með 5 stigum, 15-20. Í öðrum leikhlutanum héldu þær svo áfram að byggja ofaná forystu sína og voru 10 stigum yfir þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik, 32-42.

Upphaf seinni hálfleiksins er líklega eitthvað sem nýliðar Fjölnis vilja gleyma. Missa toppliðið 23 stigum frammúr sér í þriðja leikhlutanum, staðan 40-63 fyrir lokaleikhlutanum. Fjölniskonur ná aðeins að koma til baka í fjórða leikhlutanum, en munurinn var of mikill. Að lokum vinnur Valur með 10 stigum, 64-74

Atkvæðamestar

Kiana Johnson var atkvæðamest í liði Vals með 25 stig, 11 fráköst og 4 stoðsendingar á meðan að fyrir Fjölni var það Ariel Hearn sem dró vagninn með 22 stigum, 10 fráköstum og 7 stoðsendingum.

Hvað svo?

Bæði lið leika næst komandi miðvikudag 28. apríl. Valur fær Skallagrím í heimsókn á meðan að Fjölnir fær Hauka í heimsókn.

Tölfræði leiks