Tindastóll tók á móti Stjörnunni í 1. deild kvenna í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í dag. Fyrir leikinn voru liðin jöfn að stigum með 4 sigra hvort. Sterka leikmenn vantaði í bæði lið, Eva Rún Dagsdóttir er að jafna sig eftir erfið veikindi um páskana og hjá Stjörnunni var Jana Falsdóttir fjarri góðu gamni.

Leikurinn fór aðeins stirðlega af stað en leikmenn voru fljótir að hrista af sér slenið og eftir 7 mínútna leik leiddi Stjarnan 9-10. Liðin eru áþekk að styrkleika en þegar heimastúlkur fóru að velja sín skot betur náðu þær undirtökunum og sigu framúr. Tindastóll leiddi 22-13 eftir fyrsta leikhluta eftir að Eva Wium setti 7 stig í röð í lokin. Stjarnan kom til baka í öðrum leikhluta með mikilli baráttu og nöguðu muninn niður þó að Tindastóll gerði nóg til að halda þeim aðeins frá þér. Í hálfleik munaði 5 stigum, 36-31 fyrir Tindastól.

Munurinn hélst þetta 5-10 stig lengst af í þriðja leikhluta en í lok hans áttu heimastúlkur góðan sprett sem tryggði þeim 55-41 forystu fyrir lokaátökin. Alexandra Eva kom muninum niður í 10 stig aftur í upphafi 4. leikhluta en tveir góðir þristar frá Berglindi og auðveld karfa hjá Karen Lind kom muninum í 18 stig og gerði út um leikinn. Tindastóls stúlkur gerðu svo áfram vel í 4. leikhluta, héldu áfram að keyra að körfunni og renndu kerfum sem tryggði þeim yfirleitt ágæt skot. Stjarnan setti nokkra þrista en Stólar náðu alltaf að svara og sigrinum var ekki ógnað.

Hjá Tindastól var Marín Lind sjóðandi og endaði með 26 stig. Eva Wium náði góðri tvennu, 19 stigum og 10 fráköstum og Inga Sólveig reif niður 13 fráköst. Hjá gestunum var Alexandra Eva stigahæst með 26 stig og Bergdís Lilja bætti við 16 stigum og tók flest fráköst allra á vellinum eða 15, endaði með 23 í framlag.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Umfjöllun, myndir / Hjalti Árna