Það var undirliggjandi spenna í loftinu í Mathöll Garðabæjar í kvöld enda öllum ljóst að Njarðvíkingar róa lífróður í Dominosdeildinni. Þurftu þeir nauðsynlega að sækja sigur í Garðabæinn. Leikurinn fór fjörlega af stað. Byrjunarliðin voru áhugaverð. Arnar opnaði með Ægi, Arnþóri, Gunnari, Orra og Hlyn og Einar svaraði með Jóni Arnóri, Maciek, Kyle, Hester og Mario. Sterkar varnir og skipulagður sóknarleikur beggja megin í upphafi. Faglegur og fallegur körfubolti þar sem góðu skoti var oft fórnað fyrir betra. Báðir þjálfarar notuðu bekkinn óspart. Arnar níu leikmenn í fyrsta leikhluta og Einar Árni átta. Allt jafnt, 19-19, eftir fyrsta leikhluta og eins og í síðasta leik Stjörnumanna kom Mirza af bekknum og setti niður þrista um leið og vörnin gaf honum færi á að sjá hringinn.

Árangursríkur körfubolti beggja liða

Í öðrum leikhluta sóttu bæði lið á blokkina. Sóknin setti upp skrín hátt á vellinum sem varnarmenn þurftu að skipta á og síðan var boltanum leikið inn á blokkina þar sem stærri maður sótti á sér lægri varnarmann. Njarðvíkingar gerðu betur í að senda tvöföldun í þessari stöðu og færa til varnarmenn hratt á milli til að loka á auðveld skot en síðan hófu Stjörnumenn að leysa það. Gunnar Ólafsson sótti af krafti á hringinn og Orri setti niður þrist úr öðru horninu. Njarðvíkurmegin fundu gestirnir Hester í teignum og Stjarnan gat áfram treyst á að Mirza setti niður þristana. Urðu þeir fimm í fyrri hálfleik og var Mirza stigahæstur allra í hálfleik með 15 stig (5 þristar) en virtist þó hafa orðið fyrir meiðslum og stinga aðeins við.  Staðan í hálfleik var 42-35 og flestir tölfræðiþættir jafnir en heimamenn höfðu þó yfirhöndina í fráköstunum og fleiri hraðaupphlaupsstig. Arnar hafði haldið áfram að skipta mínútum á marga leikmenn á meðan Einar Árni varð varkárari en í fyrsta leikhluta.

Aukin pressa á Njarðvíkinga í hálfleik

Þegar seinni hálfleikur hófst voru úrslit ráðin í Hafnarfirði og endurreisn Hauka enn í fullum gangi með naumum sigri á Tindastól. Njarðvíkingar höfðu þá færst úr tíunda í fallsætið ellefta á meðan Einar, Frikki og Halldór Karlsson brýndu leikmenn í klefanum. Antonio Hester mætti kröftugur til leiks og leiddi Njarðvíkinga áfram en Stjörnuvélin seiglaðist áfram og liðið jók forskotið. Liðið spilaði afar ákafa vörn og sóknarleikurinn var einfaldur, líkamsburðir nýttir og enn skipulagður sem skilaði sér í góðum færum. Njarðvíkingar virtust nokkrum sinnum vera að ná að kveikja í endukomuneistanum sem hefur verið aðalsmerki liðsins í marga áratugi en Stjörnumenn slökktu í hvert skipti á honum og voru með níu stiga forskot fyrir síðasta leikhlutann 52-41.

Fjör Njarðvíkinga fjaraði út

Eftir rólega fyrstu mínútu efldust Njarðvíkingar og gerðu áhlaup á forystu Stjörnunnar. Sýndu gestirnir að þeir höfðu alla burði til að komast inn í leikinn en skutu sjálfa sig nokkrum sinnum í fótinn á vítalínunni. Ólafur Helgi stal boltanum setti þrist og stal svo boltanum aftur. Spennustigið hækkaði með hverri mínútunni sem leið. Stjörnumen ríghéldu í fimm stiga forystu sem síðan minnkaði í tvö sig 72-70 þegar Arnþór Guðmunds setti risaþrist eftir að Stjarnan hafði tekið tvö sóknarfráköst. Eftir leikhlé Einars Árna strax i kjölfarið koðnaði sóknarleikur Njarðvíkinga niður og sigurneistinn hvarf endanlega þegar Hlynur Bærings setti þrist úr horninu og kom Stjörnunni í 78-70.

Lykilmenn Stjörnunnar íslenskir leikmenn

Garðbæingar búa að öflugum reynsluboltum í þeim Hlyni Bærings og Ægi Steinarssyni sem skiluðu þeim frábærum varnarleik og körfum þegar mest lá við. Útlendingarnir eru skemmtilega ólíkir. AJ Brodeur verður seint talinn spennandi leikmaður. Líkamlega sterkur varnarmaður með eins og eina sóknarhreyfingu en hann gerir „það sem hann gerir“ afar vel og skilaði 16 stigum og 13 fráköstum. Mirza Sarajlija er andstæða hans. Spennandi sóknarmaður sem alltaf er ógn af og færir sóknarleik liðsins nýtt líf þegar hann er á vellinum. Gunnar, Orri, Tómas, Arnþór og Dúi ramma síðan inn sterka liðsheild sem einkennist af ákafri varnarvinnu með fáum fingurbrjótum. Þeir sem mæta Stjörnumönnum þurfa að hafa fyrir hverju stigi sem sést ágætlega á því að 82 stig dugðu þeim vel í kvöld. Það mun ekkert lið koma glaðbeitt og sigurvisst í Garðabæinn í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Sería við Stjörnuna er slítandi slagur.

Njarðvíkingar í ólgusjó fallbaráttunnar

Sá sem þetta ritar hefur aldrei séð jafnlangt á milli nágrannaliðanna Keflavíkur og Njarðvíkur. Keflvíkingar eru með deildarmeistaratitilinn í höndunum á sama tíma og Njarðvíkingar sitja í neðsta sæti deildarinnar og nægir ekki að enda með jafnmörg stig og liðin fyrir ofan þá. Njarðvíkinga virtist bæði skort trú og þrek þegar mest lá við í þessum leik. Ekki skorti vilja í síðasta leikhlutanum, það skorti lausnir og það skorti gæði. Trú leikmanna á verkefnið var ekki fyrir hendi. Það þarf hreinlega kraftaverk til að bjarga Njarðvíkingum frá því að falla úr efstu deild í fyrsta skipti í sögu félagsins. Það jákvæða í stöðunni er að Njarðvíkurliðum í gegnum tíðina hefur tekist að ganga á vatni þegar mest liggur við og hef ég trú á að vatni verði í vín breytt í mínum gamla heimabæ takist liðinu að bjarga sér frá falldraugnum.

Tölfræði leiksins

Viðtal:

Einar Árni þjálfari Njarðvíkur baðst undan viðtali

Umfjöllun og viðtöl / Jóhannes A. Kristbjörnsson