Eins og svo oft áður er LOGN í Hólminum og fólk þarf að fara inn af pallinum til að kæla sig. Það var því tilvalið að skella sér á mikilvægasta leik Snæfells á tímabilinu til þessa og kæla sig örlítið.

Hröð yfirferð

Leikmenn liðanna virtust nokkuð spenntir og var leikurinn hraður í takt við það í byrjun. Haiden opnaði stigasöfnun liðanna með glæsilegri hreyfingu áður en Annika setti opið sniðskot úr hraðaupphlaupi. Staðan 2 – 2 eftir rúmar 3 mínútur og þjálfarar liðanna að reyna að róa taugarnar hjá leikmönnum. Jafnvægi var á leiknum alveg þangað til Annika fór útaf 1:30 fyrir leikhlutaskipti en þá skoruðu heimakonur 10 stig í röð og náðu fínu forskoti 21-12.

Hjá KR var Annika allt í öllu og voru Snæfellingar að lenda í vandræðum þegar þær skiptu á hindrunum. Annika er gæðaleikmaður sem nýtti sér það frábærlega í fyrri hálfleiknum og stattið ekki að verri endanum 15 stig og 10 fráköst. Snæfellskonur voru að deila ábyrgðinni og gerðu það vel, þær spiluðu á löngum köflum frábæra vörn og þá var hjálparvörnin vel á tánum. 

Þriðji leikhlutinn einkenndist af snöggum skotum og lélegum ákvörðunum beggja liða, það endurspeglar stigaskorið í fjórðungnum 10-12 fyrir gestina. Liðin fóru því inn í síðasta fjórðunginn með Snæfell 54 – 46 KR á töflunni.

KR byrjaði þann fjórða virkilega vel og komu þær muninum í 4 stig þegar rétt tæpar átta mínútur lifðu af leiknum. Haiden Palmer tók þá yfir og silgdi sigrinum í Stykkishólmshöfn.

Leikurinn endaði með nokkuð öruggum sigri heimakvenna 77-61.

Kjarninn

Leikur upp á líf og dauða í deild þeirra bestu, Snæfell náðu mikilvægum sigri í baráttunni um framtíð sína deildinni. Með sigrinum fara Snæfell í 6 stig og skilja KR eftir einar í botnsætinu með 4 stig. Snæfell á einnig innbyrðis á KR svo það munar í raun tveimur sigrum á liðunum. Hjartað í KR liðinu þær Perla, Unnur Tara og Ástrós Lena gerðu hvað þær gátu til þess að rífa sitt lið af stað en náðu því miður fyrir KR ekki að stoppa nægilega oft í vörninni.

Af hverju unnu Snæfell

HAIDEN DENISE PALMER átti sinn besta leik í langan tíma og fór fyrir liðinu. Liðið var samstillt mest allan leikinn og náðu Snæfellskonur að slökkva algjörlega í Anniku (1 stig og 1 frákast) í síðari hálfleiknum. Anna Soffía átti enn einn stórleikinn í hvíta og rauða búningnum og fylgdu þær Tinna og Rebekka vel á eftir með flottum frammistöðum. Emese Vida var söm við sig í fráköstunum 19 stykki takk fyrir en hafði úr litlu að moða undir körfunni með aðeins 3 skot.

Það má því segja að liðsheildin og vörnin í síðari hálfleik hafi unnið leikinn fyrir Snæfell.

Hvað nú?

Snæfellskonur eru komnar í góða stöðu gagnvart KR í deildinni en lifandi á tímum Covid þá vitum við að allt getur gerst. Nú þurfa liðin að þjappa sér saman og reyna eftir bestu getu að safna stigum og sjá hvert það tekur þau. Snæfell fer í Vesturlandsslag í næsta leik á meðan KR fær Breiðablik í heimsókn.

Það er líf í deildinni og gaman að fylgjast með!

Þessi var mikilvægur Snæfell!

Tölfræði leiks

Umfjöllun / Gunnlaugur Smárason