Þór lagði Val heima í Þorlákshöfn í kvöld í 19. umferð Dominos deildar karla, 98-96. Eftir leikinn er Þór í 2.-3. sæti deildarinnar með 26 stig líkt og Stjarnan á meðan að Valur er í 4.-5. sætinu með 20 stig líkt og KR.

Gangur leiks

Gestirnir af Hlíðarenda voru skrefinu á undan í upphafi leiks, leiða með 4 stigum eftir fyrsta leikhluta, 18-22. Undir lok fyrri hálfleiksins ná heimamenn þó að rétta sinn hlut og þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik er jafnt, 47-47.

Í upphafi seinni hálfleiksins er leikurinn svo áfram í járnum, Þórsarar þó 3 stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 74-71. Undir lokin má segja að heimamenn hafi náð að vera í bílstjórasætinu lengst af. Valsmenn voru þó aldrei langt undan og hefðu þeir með smá lukku náð að snúa taflinu sér í vil. Þórsarar gera vel í að sigla að lokum sterkum 98-96 sigur í höfn.

Kjarninn

Hrikalega sterkt af Þórsurum að klára þennan leik. Þó svo þeir hafi vissulega verið ofar í töflunni en Valur fyrir leikinn, þá voru Valsarar á sex leikja sigurgöngu, sem hafði fengið allflesta til þess að trúa því að þeir væru að fara að berjast um titil nú í vor. Ekki að seggja að þeir séu ekki að fara að gera það, en Þórsarar verða samkvæmt þessari frammistöðu einnig með í þeirri baráttu.

Tölfræðin lýgur ekki

Þórsarar voru flottir af gjafalínunni í kvöld, settu 17 af 19 niður á meðan að Valsmenn voru í vandræðum þar, með aðeins 12 af 19. Svíða væntanlega sárast þau tvö sem Sinisai Bilic fékk til þess að jafna leikinn þegar að innan við mínúta var eftir.

Atkvæðamestir

Styrmir Snær Þrastarson var bestur í Þórsliðinu í dag, skilaði 24 stigum, 10 fráköstum og 4 stoðsendingum. Fyrir gestina var það Jordan Roland sem dró vagninn með 22 stigum og 5 stoðsendingum.

Hvað svo?

Bæði lið leika næst 3. maí. Þórsarar heimsækja Hött á Egilsstöðum á meðan að Valur fær Hauka í heimsókn.

Tölfræði leiks