Tindastóll rústaði Þór Akureyri í uppgjöri norðanliðanna í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld. Eftir sæmilega jafnan og harðan fyrsta leikhluta gáfu heimamenn í og Þórsarar áttu engin svör.

Þórsarar voru heitasta lið deildarinnar þegar Dominos deildin fór í pásu í mars vegna hertra Covid reglna, höfðu unnið 5 leiki í röð og stefndu hátt. Tindastóll náði að vinna Hött fyrir pásuna og virtust vera að ná vopnum sínum eftir erfiðan vetur. Leikurinn fór fjörlega af stað en sóknir liðanna voru frekar stirðar eftir pásuna. Heimamenn í Tindastól léku öfluga vörn frá byrjun og náðu að rykkja aðeins frá gestunum í lok fyrsta leikhluta með 5 stigum í röð frá Pétri Rúnari sem lék frábærlega í kvöld. Í öðrum leikhluta hertu heimamenn tökin og það var eins og gestirnir væru alls ekki tilbúnir í hörkuna, orkan fór meira í að væla undan dómurum. Góðar körfur frá Tomsik og Hannesi komu muninum í 13 stig þegar 3 mínútur voru liðnar af öðrum fjórðung og heimamenn litu ekki til baka eftir það. Pétur Rúnar hélt áfram að hrella gestina og kom muninum yfir 20 stig í lok hálfleiksins með frábærum flautuþrist.

Leikurinn því sem næst búinn í hálfleik og heimamenn sáu til þess að vafinn varð enginn með því að skora fyrstu 6 stig seinni hálfleiksins, þristar frá Jaka Brodnik og Antanas Udras. Erlendir leikmenn Þórs virtust hafa misst alveg þann litla áhuga sem þeir höfðu á leiknum fyrir utan Ivan A. sem barðist aðeins áfram. Allt kom fyrir ekki og heimamenn í Tindastól héldu bara áfram að bæta í og staðan fyrir lokaleikhlutann var ótrúleg, 92-50 fyrir Tindastól. Erlendir leikmenn Þórs spiluðu ekki eina mínútu í lokaleikhlutanum heldur tóku ungu strákarnir að sér að loka leiknum með hugrekki og baráttu. Stólar héldu bara áfram og munurinn jókst og áhorfendur í Síkinu voru farnir að kalla á að ungu strákarnir fengju að koma inn á völlinn. Sem þeir gerðu á endanum og luku leiknum með stæl, lokatölur 117-65.

Eins og fyrr sagði var Pétur Rúnar frábær í kvöld, endaði með 25 stig og 11 stoðsendingar og sýndi gamalkunna takta sem áhorfendur í Síkinu kunnu svo sannarlega að meta. Tomsick bætti 23 stigum við og Hannes Ingi setti 13 og sýndi frábæran varnarleik eins og raunar allt liðið. Hjá gestunum var fátt um fína drætti og þeir enduðu með aðeins 47 framlagspunkta sem er líklega það lægsta sem undirritaður hefur séð í vetur. Cedric Basile setti 15 stig og Ivan A. 11 og tók 9 fráköst.

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

Umfjöllun, myndir & viðtöl / Hjalti Árna