Valur lagði KR í kvöld í 16. umferð Dominos deildar kvenna, 106-52. Eftir leikinn er Valur í efsta sæti deildarinnar með 26 stig á meðan að KR er í 7.-8. sætinu með 4 líkt og Snæfell.

Gangur leiks

Heimakonur í Val fóru vel af stað í leik kvöldsins. Byggðu upp þægilega 26 stiga forystu í fyrsta leikhlutanum, 38-12. Undir lok fyrri hálfleiksins setja heimakonur svo báðar fætur á bensíngjöfina og fara með 37 stiga forystu til búningsherbergja í hálfleik, 58-21.

Í upphafi seinni hálfleiksins gáfu heimakonur í Val eilítið eftir, en ekki svo þær ynnu ekki þriðja leikhlutann. Forysta þeirra 43 stig fyrir lokaleikhlutann 82-39 og leikurinn svo gott sem búinn. Formsatriði fyrir Val að klára leikinn, sem unnu að lokum með 54 stigum, 106-52.

Kjarninn

Óhætt er að segja að munurinn á liðunum sem mættust í kvöld hafi verið nokkuð mikill. Fyrirfram var svosem hægt að gefa sér það, Valskonur við topp deildarinnar nú búnar að vinna 9 af síðustu 10 leikjum sínum á meðan að KR er við botninn, með 2 sigra í síðustu 10 leikjum. Því lítið við úrslitin sem kemur á óvart, nema kannski hversu ofsalega mikill munur greinilega er á efsta og neðsta liðinu.

Tölfræðin lýgur ekki

Valur tapaði aðeins 15 boltum í leik kvöldsins á meðan að KR tapaði 25 boltum.

Atkvæðamestar

Dagbjört Dögg Karlsdóttir var best í Valsliðinu í dag, skilaði 20 stigum og 2 stoðsendingum, en hún var með 100% skotnýtingu í leiknum. Fyrir gestina úr KR var það Annika Holopainen sem dró vagninn með 23 stigum og 5 fráköstum.

Hvað svo?

Bæði lið leika næst komandi laugardag 24. apríl. KR fær Skallagrím í heimsókn í DHL Höllina á meðan að nýliðar Fjölnis og Valur mætast í Dalhúsum.

Tölfræði leiks