Fjölnir lagði Hauka í kvöld í 18. umferð Dominos deildar kvenna, 73-65. Eftir leikinn eru Haukar í 2.-3. sætinu með 26 stig líkt og Keflavík á meðan að Fjölnir er í 4. sætinu með 24 stig.

Gangur leiks

Mikið jafnræði var á með liðunum í upphafi leiks. Heimakonur í Fjölni leiddu eftir fyrsta leikhluta, 18-14. Í öðrum leikhlutanum gerðu Fjölniskonur sig líklegar til að stinga af, komast mest 8 stigum yfir, en Haukar gera vel í að verjast því og snúa taflinu sér í vil. Staðan 29-34 þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik.

Í upphafi seinni hálfleiksins eru Haukar svo enn skrefinu á undan. Allt þar til nokkrar mínútur voru eftir af þriðja leikhlutanum. Þá ná heimakonur góðu áhlaupi og eru 4 stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 49-45. Í honum gerðu þær svo nóg til að sigla að lokum nokkuð öruggum 8 stiga sigri í höfn, 73-65.

Kjarninn

Fjölniskonur gerðu virkilega vel í að ná í þennan sigur í kvöld gegn sterku liði Hauka. Eru svo sannarlega enn á uppleið og sýndu að þegar að úrslitakeppnin kemur, verða þær klárar í leiki gegn þessum liðum sem eru fyrir ofan þær í töflunni. Óþarfi er að lesa of mikið í þetta tap Hauka. Fyrir leik kvöldsins höfðu þær unnið sex leiki í röð og voru lang heitasta lið deildarinnar. Augljóst var þó af leiknum að þær geta verið í miklum vandræðum með stóra leikmenn annarra liða. Þá kannski sérstaklega ef að stærri leikmenn þeirra taka (nánast) engin fráköst.

Tölfræðin lýgur ekki

Fjölnir gjörsamlega slátruðu frákastabaráttunni í kvöld, tóku 55 á móti aðeins 30 hjá Haukum.

Atkvæðamestar

Ariel Hearn var frábær í liði Fjölnis í kvöld, skilaði 29 stigum, 9 fráköstum og 7 stoðsendingum. Fyrir Hauka var Sara Rún Hinriksdóttir atkvæðamest með 19 stig og 9 fráköst.

Hvað svo?

Bæði lið leika næst komandi laugardag 1. maí. Fjölnir heimsækir Keflavík á meðan að Haukar fá Val í heimsókn.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Bára Dröfn)