Höttur sigraði Njarðvík 74-72 í æsispennandi lokamínútum sem gaf þó ekki rétta mynd af leiknum í heild þar sem hann var frekar rólegur og tíðindalítill.  Bæði lið voru að hitta kaflaskipt og á stundum virtust öll sund lokuð, en þess á milli komu áhlaup sem gerðu leikinn bærilegan. 

Höttur nær að halda í líflínu með þessum sigri og eru í 11. sæti með Hauka, sem hafa unnið tvo síðustu leiki, á hælunum í 12. sæti en Njarðvík situr skör ofar í 10. sætinu. Bæði Njarðvík og Höttur eiga ærin verkefni framundan.

Gangur leiks

Leikurinn byrjaði rólega með ákveðinni yfirvegun sem er fjarri þeirri staðreynd um stöðu liðanna í deildinni í dag en bæði lið eru að róa lífróður.  Kyle hafði sig mikið í frammi fyrir Njarðvík fyrstu mínúturnar og skoraði 8 stig á stuttum tíma en Höttur náði að loka fyrir þann leka og kom sér ávallt inn í leikinn með auðveldum hraðaupphlaupum eftir glundroða í sókn Njarðvíkur.  Varnarspil Njarðvíkinga hresstist við innkomu Jóns Arnórs, Loga og Ólafs Helga en um leið hrúguðust inn villur eins og stundum verða vill þegar annað tempó kemur í leikinn en staðan eftir fyrsta leikhluta var  23-18 fyrir Njarðvík.

Frekar jafnt með liðum í upphafi 2 leikhluta en léleg hittni einkenndi bæði lið og augljóst að að það lið sem færi að setja skotin sín myndi sigla fram úr.  Njarðvík átti í erfiðleikum með að stoppa Mallory sem dansaði framhjá varnarmönnum enda einstaklega lipur og hæfileikaríkur leikmaður.

Í þriðja leikhluta heldur vandræðagangur Njarðvíkur áfram í sókninni og  og mikið um einspil þar sem boltinn fær ekki að ganga og með þremur hraðaupphlaupum frá Hetti er munurinn orðinn 16 stig Hetti í vil. Góð samvinna Loga og Jón Arnórs í pressuvörn skiluðu stemmnings þrists frá Loga og Mario fylgdi á eftir og munurinn 12 stig fyrir lokaátökin.

Sigurður Þorsteinsson og Mallory byrjuðu útaf í 4 leikhluta og Njarðvík gegg á lagið, Jón Arnór setti  stemmningu í vörn Njarðvíkinga og allt í einu er 16 stiga forskot Hattar komið í 6 stig og Höttur að nýta skotklukku og hægja á sínum leik. Maciej jafnar með þrist þegar 1:05 er eftir og staðan 72-72. Tími tekinn og stemmning loksins í húsinu. Rodney dripplar út skotklukkuna og tapar því boltanum og 10:2 sek eftir og Höttur með boltann. Mallory fær boltann og skólar Njarðvík, fer framhjá Loga á sínum leifturhraða og setur auðvelt sniðskot og staðan 74-72 Hetti í vil.  Njarðvík fær innkast á sóknarhelmingi sínum með 2,7 sek eftir og  Logi fær opið 3 stiga skot og það geigar og sigur Hattar er orðinn að veruleika.

Að því sögðu

Það sem bæði lið gerðu vel var að halda spennustigi viðráðanlegu þó að á köflum það hafi virkað stemmningslaust í húsinu í þessum mikilvæga leik fyrir bæði lið.

Það voru bjartir kaflar á báða bóga en Mallory var eins og svo oft áður besti maðurinn á vellinum og þá skipti litlu hver var að dekka hann.  Það er klárt mál að vendipunkturinn í leiknum er þegar Rodney dripplar út skotklukkuna og skilur eftir 10,7 sekúndur fyrir Hött sem þeir nýttu vel og völdu sinn besta mann til að fara alla leið að körfunni fyrir auðveld 2 stig. Þessi ákvörðunartaka Rodney er einmitt það sem einkenndi sóknarleik Njarðvíkur og þessi skortur á að vinna saman í sókninni varð þeim að falli í þessum leik enda áttu þeir erfitt uppdráttar gegn líkamlega sterku og úthaldsmeiri leikmönnum Hattar.

Tölfræði

Í þessum jafna leik þá er erfitt að benda á eitthvað eitt í tölfræðinni en skotnýtingin var það helsta sem skildi á milli í dag þar sem Höttur var með 44% nýtingu á móti 35% hjá Njarðvík.  Mallory var stigahæstur með 26 stig og Sigurður Þorsteinsson með 16 fráköst hjá Hetti en hjá Njarðvík voru það Kyle með 16 stig  og 12 fráköst.

Hvað svo?

Baráttan heldur áfram hjá báðum liðum en Njarðvík heimsækir Stjörnuna og Höttur mætir á Akureyri þann 29 apríl og spennan heldur áfram í einni líflegustu deild allra tíma.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Umfjöllun / Margrét Sturlaugsdóttir

Myndir / Skúli Björgvin